10% samdráttur er á íbúðum í byggingu hér á landi ef miðað er við sama tíma á síðasta ári. Þó er framvinda uppbyggingar hraðari en undanfarin misseri og fleiri framkvæmdir fara af stað á milli talninga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
7.181 íbúð telst í byggingu á landsvísu, sem er nánast sami fjöldi íbúða og taldar voru í síðustu talningu í september á síðasta ári (7.221 íbúð). Á sama tíma í fyrra voru hins vegar 7.976 íbúðir í byggingu.
Fjöldi íbúða á fyrri stigum, fram að fokheldi, er sá minnsti frá því talningar hófust í september 2021 og frá því í mars á síðasta ári hefur þeim fækkað um 947 íbúðir eða um 22,7%.
HMS framkvæmir tvisvar á ári heildstæða greiningu á stöðu íbúðauppbyggingar á Íslandi með talningu allra íbúða í byggingu. Slík greining, sem fram fer í mars og september ár hvert, veitir yfirsýn yfir umfang framkvæmda, dreifingu þeirra milli landshluta og þróun á mismunandi stigum byggingarferlisins, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Á undanförnum árum hefur íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu farið fækkandi og hélt sú fækkun áfram á þessu ári. Mest dró úr framkvæmdum í Kópavogi og Hafnarfirði, þar sem þeim fækkaði um 20,5% annars vegar og 19,9% hins vegar milli talninga eða samtals um 339 íbúðir. Í Reykjavík var fækkunin minni, en engu að síður eru íbúðir í byggingu þar færri en þær hafa verið frá því að HMS hóf reglubundnar talningar árið 2021.
Á sama tíma fjölgar íbúðum í byggingu í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins um 19,7%. Mest er fjölgunin í Sveitarfélaginu Ölfusi, þar sem hún nemur 132,8%, en einnig var marktæk fjölgun í Sveitarfélaginu Vogum þar sem íbúðum í byggingu fjölgaði um 98,9%. Á hinn bóginn hefur dregið úr uppbyggingu á Akranesi, þar sem samdráttur er um 19%.
Í talningum ársins 2023 komu fram vísbendingar um að hægt hefði á framvindu íbúðaframkvæmda. Þetta mátti meðal annars sjá á því að talsverður fjöldi íbúða var á sama framvindustigi milli talninga, þrátt fyrir að þær hefðu í flestum tilfellum átt að vera komnar lengra í ferlinu á þeim tíma sem leið á milli talninga.
Síðan þá hefur þróunin orðið önnur, sífellt færri framkvæmdir standa í stað milli talninga og framvindan virðist nú hraðari. Flestar hafa íbúðir með óbreytta framvindu verið 3.929 talsins í september 2023 en sé litið á fjöldann í tengslum við mögulegar árstíðarbreytingar þá eru íbúðir sem nú mælast með óbreytta framvindu um 61,4% færri en mældist fyrir tveimur árum síðan og um 35,2% færri en fyrir ári síðan.
Frá síðustu talningu í september 2024 hafa hafist framkvæmdir við 1.585 nýjar íbúðir víðs vegar um landið. Þetta eru íbúðir sem ekki voru í byggingu við síðustu talningu og marka áframhaldandi viðsnúning frá lágpunkti nýframkvæmda í september 2023. Til að mynda eru nú 48,8% fleiri íbúðir í nýjum framkvæmdum en mældust í marstalningu 2024.
Tæplega helmingur nýframkvæmda, eða um 49 prósent, er á höfuðborgarsvæðinu, sem er hlutfallslega minna en áður hefur mælst. Til samanburðar voru 59 prósent nýrra framkvæmda þar við síðustu talningu og 69 prósent í mars 2024, sem bendir til þess að nýframkvæmdir dreifist nú í auknum mæli til annarra landshluta.