„Íbúar í Breiðholti hafa litlar sem engar upplýsingar fengið um þær lausnir sem nú eru til skoðunar. Upplýsingagjöf vegna málsins hefur verið mjög ábótavant og biðin eftir lausnum nokkuð löng,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, í samtali við mbl.is.
Hún gagnrýnir seinagang borgarinnar vegna málefna vöruskemmunnar að Álfabakka, en íbúar Breiðholts bíða nú tíðinda af þeim lausnum sem unnið er að vegna málsins.
„Þetta er eitt stærsta skipulagsklúður sem raungerst hefur í Reykjavík á síðustu árum. Það hefur auðvitað fyrst og fremst hræðileg áhrif á lífsgæði íbúa að Árskógum, en hefur vafalaust jafnframt valdið miklu óhagræði fyrir þá aðila sem hyggjast hefja starfsemi í húsnæðinu,“ segir Hildur.
„ Betur hefði farið á því að endurskipuleggja alla Mjóddin í heild, í því hefði falist mikið tækifæri til að skapa enn öflugri þungamiðju verslunar og þjónustu fyrir Breiðholtið.“
Á borgarstjórnarfundi 4. mars sl. lagði Sjálfstæðisflokkur fram tillögu um kostnaðarmat mögulegra sviðsmynda vegna framtíðar stálgrindarhússins við Álfabakka. Meirihluti borgarstjórnar vísað tillögunni frá og sagði embættismenn þegar vinna að lausn málsins.
„Það er varla til of mikils mælst að við fáum að sjá þær sviðsmyndir sem liggja á borðinu, svo hægt sé að meta þær leiðir sem eru færar til að bregðast við þessu ömurlega máli. Við áttum von á niðurstöðum úr vinnu sviðsins í lok janúar, en nú tveimur mánuðum síðar höfum við engin tíðindi fengið af framvindu mála“.