„Ég las það í fréttum að lögreglan á Suðurlandi hefði tekið skýrslu af konu og þar kom jafnframt fram að lögreglan þar ætti von á að hún myndi framsenda gögn málsins til lögreglustjórans á Suðurnesjum, en ég veit ekki til þess að þau séu komin í hús,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við Morgunblaðið.
Frá því var greint í Morgunblaðinu sl. laugardag að Soffía Sigurðardóttir, systir höfundar nýrrar bókar um Geirfinnsmálið, hefði fyrir skemmstu gefið skýrslu hjá lögreglunni á Suðurlandi, þar sem hún kom á framfæri upplýsingum sem þau systkin búa yfir um hvarf Geirfinns Einarssonar sem ekkert hefur spurst til síðan 19. nóvember 1974.
Haft var eftir Sveini Rúnari Kristinssyni yfirlögregluþjóni á Suðurlandi að málið yrði væntanlega sent til lögreglustjórans á Suðurnesjum, en þar hófst rannsókn á hvarfi Geirfinns.
Í fyrrgreindri bók kemur fram hjá einum viðmælanda að sá hafi orðið vitni að því sem ungur drengur að Geirfinnur hafi orðið undir í átökum við annan mann að kveldi umrædds dags og beðið bana í þeim slagsmálum.
Spurður um hvernig á málinu yrði tekið þegar það bærist lögreglunni á Suðurnesjum sagði Úlfar að málið yrði skoðað vel og með sambærilegum hætti og ávallt væri gert þegar mál bærust embættinu.
„Það sem lögreglan á Suðurlandi sendir okkur kemur til skoðunar hér hjá embættinu og fer í hefðbundið ferli. En ég veit ekki til þess að málið sé komið hingað,“ segir Úlfar.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag