Gera aðra tilraun til að opna Blönduhlíð

Blönduhlíð er staðsett á svokölluðu Farsældartúni í Mosfellsbæ.
Blönduhlíð er staðsett á svokölluðu Farsældartúni í Mosfellsbæ. mbl.is/Karítas

Barna- og fjölskyldustofa auglýsir nú eftir deildarstjóra á stuðningsheimilið Blönduhlíð í Farsældartúni í Mosfellsbæ, þar sem til stóð að opna meðferðarheimili í desember en ekkert varð af, þar sem húsnæðið stóðst ekki brunaúttekt, þrátt fyrir endurbætur.

Nú virðist vera búið að taka ákvörðun um að nýta húsnæðið undir stuðningsheimili, en það hefur staðið autt síðustu mánuði. Barna- og fjölskyldustofa hefur engu að síður greitt 750 þúsund krónur í leigu af húsnæðinu á mánuði.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa áformin um að opna stuðningsheimili í Blönduhlíð ekki verið kynnt fyrir þeim sem starfa við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu og ekki liggur fyrir hvaða skjólstæðinga úrræðið mun henta.

Stuðningsheimili var við hlið Stuðla

Síðast var rekið stuðningsheimili sem tilraunaverkefni á vegum Barna- og fjölskyldustofu og sveitarfélaga við hlið Stuðla, fyrir börn og unglinga sem gátu ekki farið heim til sín að lokinni meðferð. Því stuðningsheimili hefur verið lokað.

Í skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda frá árinu 2023 er tekið fram að mikilvægt sé að festa í sessi vist- eða stuðningsheimili, líkt og áðurnefnt heimili sem var tilraunaverkefni. Engin af þeim 14 tillögum sem þar eru settar fram hafa þó orðið að veruleika.

Í auglýsingu fyrir starf deildarstjóra stuðningsheimilisins í Blönduhlíð kemur fram að viðkomandi þurfi að hafa góða þekkingu á málefnum barna og ungmenna og að starfið heyri undir forstöðumann Blönduhlíðar. Er það kostur ef viðkomandi getur hafið störf sem fyrst.

Kynntu sér reglugerðina ekki nógu vel

Líkt og áður sagði stóð til að opna meðferðarheimili í Blönduhlíð í desember síðastliðnum og var formlegri opnun þess í raun flýtt og opnaði Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, heimilið að viðstöddum fjölmiðlum, þann 26. nóvember síðastliðinn, fjórum dögum fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Þá hafði brunaúttekt ekki farið fram og starfsleyfi var ekki til staðar. Þegar í ljós kom að um var að ræða sýndaropnun upplifðu foreldrar barna sem biðu eftir því að komast í meðferð við fíknivanda sig svikna. Við tók enn meiri óvissa og bið, en heimilinu var á endanum fundin tímabundin staðsetning á Vogi og var opnað þar í febrúar.

Þegar mbl.is krafði stjórnendur Barna- og fjölskyldustofu svara um hvað hefði farið úrskeiðis og hvers vegna heimilið var ekki opnað, kom í ljós að ekki hafði verið kannað hvaða öryggiskröfur voru gerðar til meðferðarheimilis af þessu tagi, áður en ráðist var í framkvæmdir.

Ekki var farið í útboð vegna framkvæmdanna eins og venjan er heldur ákvað Barna- og fjölskyldustofa að ráðast í framkvæmdir upp á eigin spýtur til að flýta ferlinu.

Stuðningsheimili ætti að standast kröfur

Þá vissu þau ekki að meðferðarheimili væri skilgreint í notkunarflokki 5, samkvæmt byggingarreglugerð, en töldu það falla í notkunarflokk 3. Eitthvað sem var ekki gengið úr skugga um. Ríkari öryggiskröfur eru gerðar varðandi brunavarnir mannvirkja í notkunarflokki 5 og þær úrbætur sem gerðar höfðu verið í Blönduhlíð dugðu ekki til að standast þær kröfur.

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, og Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, hafa bæði sagt í samtölum við mbl.is að hægt væri að nýta Blönduhlíðina fyrir annars konar starfsemi en meðferðarheimili, og hefur Ólöf nefnt stuðningsheimili í því samhengi. Það þyrfti hins vegar aukafjármagn til þess. Hvort það hefur fengist, liggur ekki fyrir.

Ætla má að Blönduhlíð standist brunaúttekt sem stuðningsheimili, þar sem ein helsta ástæðan fyrir því að meðferðarheimili fellur í notkunarflokk 5 er sú að þar er fólk innritað og útskrifað. Það er hins vegar ekki gert á stuðningsheimili og ætti það því að falla í notkunarflokk 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert