Móðir stúlku í grunnskóla í Garðabæ segist ekki lengur þekkja dóttur sína. Stúlkan mætir nú varla í skólann, neytir áfengis og fíkniefna, og hangir með hópi jafnaldra sinna sem beitir önnur börn ofbeldi.
Þá beitir stúlkan foreldra sína jafnframt líkamlegu ofbeldi, hótar þeim lífláti og öllu illu. Fram að verkfalli kennara í vetur var stúlkan fyrirmyndarnemandi og þótti framúrskarandi.
Móðirin sem vill ekki koma fram undir nafni segir kerfið úrræðalaust gagnvart vandamálum dóttur sinnar. Hún segir dóttur sína hafa lært það á undanförnum mánuðum að afbrotahegðun hennar hafi engar afleiðingar þar sem hún sé undir sakhæfisaldri og því haldi hún bara áfram og áfram. Þá séu jafnframt engin meðferðarúrræði í boði til að taka á móti barninu og aðstoða foreldrana sem eru algjörlega ráðþrota.
„Ég er búin að lenda í ólýsanlegum aðstæðum með þetta barn mitt síðan í desember, sem mér hefði aldrei getað dottið í hug að gæti gerst á svona stuttum tíma,“ segir móðirin í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir gott fólk starfa hjá barnavernd og lögreglu en kallar eftir því að kerfið taki betur á börnum sem brjóta af sér og beita ofbeldi. „Það er ekkert hægt að gera fyrir hana, þannig að hún er bara úti í samfélaginu í rugli og vitleysu og mætir ekki í skóla og það er enginn að gera neitt.“
Hinn 25. nóvember hófu kennarar verkfall í nokkrum grunnskólum landsins. Kennarar í grunnskóla stúlkunnar voru meðal þeirra sem lögðu niður störf.
„Þá byrjum við að sjá mynstur af hegðunarbreytingum. Fyrir það var aldrei vesen á henni. Aldrei. Hún var fyrirmyndarnemandi.“
Strax í næsta mánuði strauk stúlkan í fyrsta sinn að heiman. Stúlkan fór í skólann um morguninn en sneri ekki aftur heim fyrr en sólarhring síðar.
„Það var bara upp úr þurru. Mig grunaði ekki þennan morguninn að barnið mitt myndi strjúka eða að það væri eitthvað að. Það er bara einhver sem sækir hana í skólann.“
Í bílnum var jafnaldri stúlkunnar og undir stýri var eldri vinur hans. Laust fyrir miðnætti sá móðirin loksins með hverjum dóttir hennar var, þegar hún og drengurinn birtu myndskeið á TikTok. Móðirin þekkti drenginn og hafði því samband við hann. „Ég hringi og óska eftir að hann komi með hana heim – þetta verði ekkert vesen. Bara að hún komi heim. Það væri fyrir öllu.“ Drengirnir sem stúlkan var með tóku ekki vel í það.
„Hann byrjar að hóta mér nauðgunum. Hann ætlar að láta þennan nauðga mér og þennan koma og berja mig. Hótaði mér út í eitt, alla nóttina. Hann var farinn að senda mér klámmyndir og ég veit ekki hvað. Þetta var ógeð alla nóttina. Ég sagði lögreglunni frá þessu og sýndi þeim.“
Dóttirin sneri heim daginn eftir. „Og síðan þá er hún búin að vera í stöðugu stroki.“
Ofbeldi barna hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu eftir að Morgunblaðið og mbl.is greindu frá áralöngum eineltis- og ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla. Þá hefur Morgunblaðið einnig fjallað um mál stúlku í Breiðagerðisskóla sem neyddist til að víkja úr skólanum eftir að tveir drengir réðust á hana með stíflueyði.
„Þetta er ekkert bara bundið við Breiðholtsskóla. Þetta er orðið að stóru gengi af börnum sem þarna hanga saman,“ segir móðirin og vísar þá til Mjóddarinnar. „Þetta eru allt börn sem sýna einhverja áhættuhegðun, eru að strjúka að heiman eða eru í neyslu. Það er fullt af foreldrum að glíma við þetta, ekki bara í Breiðholti.“
Hún segir mörg börnin eiga það sammerkt að eiga veikt bakland og þurfa meiri og betri aðstoð heima fyrir og frá kerfinu. „Þetta eru börn sem eiga ótrúlega erfitt í lífinu, eiga stundum foreldra sem er alveg sama, og hegðunin brýst svona út. Þau þurfa bara knús og ást. En það sem er svo erfitt hérna á Íslandi er að það má ekki refsa þeim. Þau eru ósakhæf með öllu.“
Hún segir hendur foreldra oft algjörlega bundnar þegar börnin þeirra beita ofbeldi og kerfin geti bara veitt takmarkaða aðstoð.
„Dóttir mín fer í bræðisköst þar sem hún verður ofboðslega ofbeldishneigð og ræðst á mig eða pabba sinn. Hún er búin að brjóta disk á mér. Hún er búin að brjóta glas á mér. Hún er búin að bíta mig svo hryllilega að ég var stokkbólgin í marga daga á eftir. Hún er búin að berja höfðinu á mér utan í vegg og rífa utan af mér föt.“
Einu sinni hafi hún brugðist við þegar dóttir hennar beit hana með því að reyna að tosa hana af sér. Móðirin var þá kærð fyrir heimilisofbeldi.
„Það sást ekkert á barninu. Það stórsá á mér. En svo eru kærurnar felldar niður eftir einhvern tíma,“ segir hún og heldur áfram: „Þetta gefur börnum leyfi til þess að gera bara hvað sem þau vilja í þjóðfélaginu án þess að nokkur geri neitt.“
Það var í desember sem stúlkan byrjaði að drekka í fyrsta sinn. Síðar tók við neysla annarra vímuefna.
„Hún gerir það innan veggja skólans. Hún fer út úr tíma og inn á klósett og byrjar að „gasa“. Þessi víma mælist hvergi en þetta er stórhættulegt fyrir heilann. Þetta eru börnin að stunda,“ segir móðirin, sem kveðst hafa leitað til barnaverndar í von um að fá aðstoð. Engin meðferðarúrræði voru þó í boði fyrir hana eða hafa verið síðan þá.
„Barnavernd vill ekki senda hana á Stuðla af því að þar getur hún kynnst krökkum sem eru í verri neyslu en hún.“
Stúlkan hefur þó í þrígang verið send á neyðarvistun Stuðla.
Móðirin hefur haft samband við Foreldrahús en þar er m.a. boðið upp á langtímameðferðarúrræði sem nefnist VERA. Fyrsti mánuðurinn í slíku úrræði kostar 260 þúsund krónur, að því er fram kemur á heimasíðu Foreldrahúss. „Hún þarf að fá pláss þar í gegnum barnavernd. Við óskuðum eftir því, og fulltrúi frá Foreldrahúsi, en barnavernd neitaði. Ég fékk synjun. Þau eru til í að senda foreldrana á námskeið en ekki til í að bjarga barninu. Þetta er svo mikið djók.“
Fyrir áramót fór stúlkan í geðrof og var flutt á Barnaspítalann. „Þetta var ekki barnið mitt,“ segir hún um atvikið.
„Ég sá bara einhverja aðra stelpu þarna.“
Það var þó ekki nóg til að koma stúlkunni að á barna- og unglingageðdeild. „Til þess að komast inn á BUGL þarf barnið að segja: „Mig langar til að deyja.“ Það er ekki nóg að stunda sjálfskaða alla daga úti í samfélaginu, eða að beita önnur börn ofbeldi eða aðra einstaklinga,“ segir móðirin.
„Ekkert annað virkar. Ég er búin að reyna allt til að koma henni inn. Vegna þess að hún fer í geðrof og hótar að stinga okkur fjölskylduna. Lögreglan er alltaf á heimilinu hjá okkur. Barnavernd er alltaf hjá okkur. Við erum með annað barn sem er yngra en hún og þetta truflar hann líka. Mér finnst eins og það séu engin úrræði í boði fyrir börn á þessum aldri. Engin meðferðarúrræði, engin vistun utan heimilis.“
Foreldrar stúlkunnar sækja í dag svokallað MST-námskeið á vegum barnaverndar.
„En á meðan fær hún að gera það sem hún vill,“ segir móðirin og tekur fram að dóttir hennar hafi í síðustu viku verið handtekin eftir að hafa fundist ofurölvi í Mjóddinni. „Hún var handtekin og færð á lögreglustöðina í Hafnarfirði þar sem hún lét öllum illum látum og það þurfti að halda henni niðri á gólfinu í handjárnum í klukkutíma þar til hún var færð í lögreglufylgd á bráðamóttökuna til að athuga hvaða fíkniefni væru í blóði hennar. En það var ekkert nema áfengi.“
Hafið þið áhyggjur af því að hún beiti yngra barnið á heimilinu ofbeldi?
„Nei, ég hef engar áhyggjur af því. Hún er miklu meira að hegða sér svona með þessum krökkum sem hanga í Mjóddinni. Þau þurfa að sýna sig fyrir hvert öðru. Ég er kúl og flott og get gert þetta, stolið þessu eða lamið þennan. Þetta snýst allt um að vera fínn og kúl og láta myndskeiðin af þessu dreifast á TikTok og Snapchat. Það snýst allt um það.“ Hún segist eiga fjölmörg myndskeið af drengjunum, sem stúlkan er í slagtogi við, að ganga í skrokk á öðrum börnum og ræna af þeim úlpum.
Hvað finnst þér um að dóttir þín sé komin í þennan félagsskap?
„Mér finnst það hræðilegt.“
Frá því að stúlkan strauk í fyrsta skiptið í desember hefur hún ítrekað farið að heiman í óþökk foreldra sinna.
„Það er ekkert gert við því. Lögreglan leitar, hún kemur heim og svo byrjar bara strokið aftur. Það eru engar úrlausnir,“ segir móðirin sem kennir m.a. úrræðaleysi kerfanna um, agaleysi í þjóðfélaginu „og það að börnin komist upp með allt“.
Hún leggur til að börn verði til að mynda látin sinna samfélagsþjónustu, verði þau uppvís að lögbroti, til að þau dragi einhvern lærdóm af slæmri hegðun og afleiðingum hennar, sem að sögn móðurinnar eru engar í dag.
„Dóttir mín myndi aldrei stela aftur. Hún myndi aldrei nenna því. Ég skil ekki af hverju það er ekki hægt að gera neitt þegar börn eru ósakhæf, til að mynda láta þau gera eitthvað sem er hundleiðinlegt. Þau eru ekki að fara að gera þetta aftur,“ segir hún.
„En það eru engar lausnir. Börnin eru ósnertanleg og þetta vita þau. Þess vegna eru hlutirnir svona. Dóttir mín segir þetta líka við barnavernd og lögreglu: „Hvað ætlar þú að gera? Þú getur ekki gert neitt, ég er ósakhæf.““
Hvað vilt þú að verði gert fyrir dóttur þína?
„Ég vil að yfirvöld hlusti á foreldra; barnavernd, lögregla og fleiri. Ef móðir eða faðir telja að barnið eigi við vandamál að stríða, þá sé það athugað, því við þekkjum börnin okkar best.“
Þá kallar hún eftir því að foreldrar geti leitað með börnin sín á barnageðdeild.
„Nánast annað hvert barn er greint með ADHD eða aðrar raskanir. Þessi börn þurfa aðstoð, þau þurfa ekki bara pillur. Læknar skrifa endalaust út concerta og annað – börnin þurfa hjálp, þau þurfa aðhald. Það fer ekki nægt fjármagn í þetta málefni. Það er ekkert lagt í þessa innviði á Íslandi sem eru gjörsamlega að hruni komnir.“