Leita allra lausna: Örvænting meðal starfsfólks

Kvikmyndaskóli Íslands.
Kvikmyndaskóli Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segir forsvarsmenn skólans í samtali við stjórnvöld og að leitað sé allra lausna til að halda starfsemi skólans gangandi og greiða starfsfólki laun. Skólinn sé enn opinn og námskeið kennd en starfsfólk bíði vissulega örvæntingarfullt eftir svörum.

Greint var frá í gær að skólinn væri farinn í gjaldþrotameðferð.

Málið á borði stjórnvalda

Í samtali við mbl.is segist Hlín vera búin að upplýsa starfsfólk skólans um að mikilvægir fundir hafi verið haldnir í ráðuneytum í dag þar sem verið er að taka málið fyrir ítarlega.

Mánuðum saman hafa staðið yfir viðræður milli skólans og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sem og mennta- og barnamálaráðuneytisins um yfirfærslu málefna skólans úr síðarnefnda ráðuneytinu yfir í það fyrrnefnda.

Starfsfólk orðið örvæntingarfullt

Þá segist Hlín hafa fundað með starfsfólki skólans klukkan 11 í morgun þar sem farið var yfir stöðuna og segir hún nálgun allra sem að málinu koma, þar á meðal stjórnvalda, vera að allt verði gert til þess að bjarga nemendum.

„Þá þarf auðvitað að halda kennslu gangandi og þá þarf auðvitað að greiða laun kennara,“ segir Hlín og tekur fram að mikið starf sé í gangi núna við að vinna að því en nefnir einnig að örvæntingu sé að finna á meðal starfsfólksins.

Skólinn opinn og námskeið kennd

Hún segist hafa fundað með nemendafélagi skólans síðasta föstudag og talað þá einnig við nemendur skólans.

„Ég bara blés þeim smá von í brjóst sem ég taldi mig eiga innistæðu fyrir og ég veit að það er vilji til að leysa þetta og ég sagði þeim það og að við myndum halda skólanum opnum og leita allra leiða til að það yrði kennt þau námskeið sem eru í gangi.“

Lítið um afföll

Í tölvupósti sem Hlín sendi starfsfólki skólans var leitað á náðir þeirra um að gefa forsvarsmönnum svigrúm til að leysa úr málunum, en hún tekur þó fram að hver einasta mínúta skipti máli.

Það hefur verið alveg ótrúlegur velvilji frá þessu frábæra starfsfólki og kennurum sem við erum svo lánsöm að hafa. Þannig það hafa ekki verið mikil afföll.

Segir Hlín að, enn sem komið er, sé einn kennari sem hafi ekki séð sér fært um að halda áfram, en það hafi verið vegna aðstæðna heima fyrir.

Þá segir hún starfsfólkið vera saman á spjallþræði þar sem Hlín reyni að veita upplýsingar um stöðu mála reglulega.

Trúa því að skólinn haldi áfram

Hvað sérðu fyrir þér að þurfi að gerast svo að skólinn lifi þetta af?

„Það er margt sem þarf að gerast. En fyrst og fremst viljum við horfa á nemendur og starfsfólk. Það er það sem við horfum á númer eitt, tvö og þrjú. Við viljum allt til þess vinna að þessu misseri verði bara lokið eins og lög gera ráð fyrir og við stefnum þangað.

Það er samtalið sem á sér stað núna. Síðan verður bara að ráðast með framhaldið. En við trúum því hér í skólanum að okkur beri gæfa til þess að sjá hann halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert