Ágústa Ágústsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi steig í pontu á Alþingi í dag og lýsti líkamlegu og kynferðisofbeldi af hálfu maka. Ræðan var undir liðnum störf þingsins. Þar lýsir hún upplifun sinni í 14 ára ofbeldissambandi.
Í ræðunni gerir hún m.a. að því skóna að lögregla geri lítið úr umkvörtunum þolenda auk þess sem hún lýsir hugarástandi sínu á meðan hún var í þeim aðstæðum sem hún upplifði. Hvatti hún löggjafann til þess að gera bragarbót í kynferðisafbrotamálum.
Ræðan er meðfylgjandi:
„Frú forseti. Fyrsta höggið, fyrsta sjokkið. Lausar tennur þegar hann keyrir höfuð hennar fullum þunga ofan í jörðina meðan tjaldstæðisgestir horfa á en gera ekkert. Löggan sem sagði: Kæra hann? Já, já, viltu ekki bara sofa á þessu í nótt og koma svo á morgun? Hún vaknar reglulega við hann ofan á sér um miðjar nætur — brýtur alltaf öll mörk — sefur á varðbergi því hann brjálast ef börnin skríða upp í. Öskur, læti og ásakanir út af öllum mögulegum hlutum þangað til hún er orðin svo þreytt að það verður einfaldara að halda friðinn, spila leikinn, láta undan. Hvert á hún annars að fara? Vera meðvirk, verja hann í von um að einhvern tímann efni hann loforðin. Einangrast. Niðurlægingar, lygar, niðurbrot.“
„Drullaðu þér frá andlitinu á mér áður en ég kúgast. Ég kúgast ef ég horfi á þig. Svo læst hann kúgast. Ég elska þig. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef þú færir frá mér. Hún pakkar rétt nauðsynlegustu fötum sínum og barnanna, skjálfandi af hræðslu yfir því að hann komi að henni. Hefur þú aldrei átt þér drauma? Spyr hún. Jú, að drepa þig. Svo hlær hann.“
„Hún er konan sem stendur hér í pontu Alþingis í dag. 14 ár af ofbeldi. Það er ástæða fyrir því að ég á Schäfer-hund, ég get treyst því að hann verji mig. Það gerir kerfið ekki. Rödd heyrist: Já, en hvað með konur sem ljúga? Með sömu rökum get ég sagt: Hey, bönnum öllum karlmönnum að vinna með börnum þar sem flestir barnaníðingar eru af því kyni. Erum við til í það? Örugglega ekki. Mæðuleg rödd heyrist: Já, en þetta eru svo flókin mál. Nei, þau eru nefnilega alls ekkert flókin. Hættum að kyngera ofbeldi. Ofbeldi er bara ofbeldi sama hver beitir því. Á meðan löggjafarvaldið tekur sig ekki saman í andlitinu þá mun þessi faraldur halda áfram að blómstra í skugga þess. Vorkunn gagnast þolendum ekkert. Afstaða og aðgerðir gera það. Afleiðingar ofbeldis fylgja þolendum út lífið. Það eyðileggur líf og það tekur líf. Það hefur stór keðjuverkandi áhrif út í samfélagið okkar sem sýkir það, veikir, kostar það lýðheilsuna, geðheilsuna og sendir kynslóðir áfram veginn haltar og/eða brotnar.“
Heyra mátti í þingsal orðin heyr, heyr! eftir að ræðunni lauk.