Aukinn kraftur hefur færst í skjálftahrinuna í Öxarfirði síðustu daga og hafa skjálftarnir fært sig nær Grímsey í dag.
Hátt í 40 skjálftar hafa mælst síðastliðinn sólarhring á svæðinu en sá stærsti mældist í kringum 2,1 að stærð.
Þetta segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Við erum búin að horfa á skjálftahrinu inn í Öxarfirði, vestan af Kópaskeri. Í áttina að Grímsey hefur virknin verið að aukast í dag. En svo hefur þetta verið að byrja aftur í Öxarfirði síðustu eina til tvær klukkustundirnar,“ segir Steinunn.
Skjálftahrinan í Öxarfirði hófst á sunnudagsmorgun en hátt í 140 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan þá. Sá stærsti mældist á sunnudaginn og var hann 2,4 að stærð.
Segir Steinunn að mesta virknin hafi verið á sunnudaginn en að dregið hafi úr virkninni í gær. Hún tók þó aftur upp síðdegis í gær og hefur verið stöðug síðan.
„Þetta í rauninni þýðir ekki neitt sérstakt. Við erum þarna inn á Tjörnesbrotabeltinu og það er mjög algengt að fá jarðskjálfta og jarðskjálftahrinur á þessu svæði,“ segir Steinunn.