„Landrisið heldur áfram og jarðskjálftar í samræmi við það og það stefnir allt í að það verði kvikuhlaup áður en mjög langt um líður,“ segir Páll Einarsson, prófessor emiritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, spurður út í stöðuna á Reykjanesskaganum.
Flest bendir til þess að áttunda eldgosið í goshrinunni við Sundhnúkagígaröðina, sem hófst í desember 2023, sé á næsta leiti. Síðasta gosi við gígaröðina lauk 9. desember. Kvikan sem safnast hefur undir Svartsengi er orðin meiri nú en þá þótt verulega hafi hægst á kvikusöfnuninni.
Páll segir ómögulegt að segja til um það hvenær það dragi til tíðinda. Hann segir ekkert í mælingunum sem geti sagt til um það.
„Ástandið eins og það er núna býður upp á að það geti gosið hvenær sem er en það getur líka dregist,“ segir hann.
Frá því goshrinan hófst í desember 2023 hefur aldrei liðið lengri tími á milli gosa. Páll útilokar ekki að í ljósi þess þá gæti gosið orðið öflugra en áður.
„Flestir telja líklegast að næsta gos verði með svipuðum hætti og síðustu þrjú gos en þar sem landrisið er orðið meira þá gæti það alveg orðið stærra,“ segir hann.
Spurður um framhaldið og hvort möguleiki sé á því að goshrinunni á Sundhnúkagígaröðinni sé að ljúka og einhver önnur kerfi á Reykjanesinu vakni til lífsins segir hann:
„Það er ekkert sem getur sagt okkur eitthvað um það. Það verður bara að fylgjast vel með. Ef það gýs með svipuðum hætti og síðast þá kemur í ljós þegar því lýkur hvort landris hefjist á nýjan leik eins og hefur gerst ansi oft,“ segir hann.
Páll segir að margar sviðsmyndir komi til greina í framhaldi af næsta gosi. Ein sé sú að kvikustreymið fari á aðra staði.
„Það hefur gerst áður og getur alveg gerst aftur. Það verður bara að koma í ljós þegar þar að kemur. Ég er ekki í vafa um að við munum sjá það þegar það gerist,“ segir hann.
Páll segir að Reykjanessvæðið sé búið að vera mjög virkt síðustu ár og þegar leið á árið 2020 og 2021 hafi þrjú til fjögur kerfi verið búin að taka við sér og sýna virkni, í Krýsuvík, Svartsengi og í Fagradalsfjalli.
„Ein af sviðsmyndunum er að Krýsuvíkurkerfið taki aftur við sér og það er búið að vera landris þar að minnsta kosti einu sinni eftir að þetta byrjaði.“