Þekkt venesúelsk glæpasamtök tengd Íslandi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Karítas

Venesúelsku glæpasamtökin El Tren Aragua eru með „tengingar við Ísland“.

Þetta kemur fram í fréttaskýringaþættinum Þetta helst. Greint er frá efni þáttarins á vef Ríkisútvarpsins.

Í þættinum er einnig rætt við venesúelska hælisleitendur sem eru búsettir hér á landi og hafa flúið glæpasamtökin. 

Í svari embættis ríkislögreglustjóra segir að embættið geti staðfest að samtökin hafi tengingar við Ísland en að ekki sé hægt að greina frá því hvers eðlis þær eru. 

Samtökin hafa verið í fréttum síðustu daga en í síðustu viku sendu Bandaríkin 238 meðlimi samtakanna til El Salvador þar sem þeir munu dvelja í fangelsi. Bandaríkin greiða El Salvador fyrir að taka á móti þeim. 

Studdist við 200 ára gömul stríðslög

Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf út forsetatilskipun um brottvísun glæpasamtakanna fyrir rúmri viku síðan.

Vísaði hann til stríðslaga frá árinu 1798 sem kveða á um að þegar Bandaríkin eru í stríði eða að verja af sér innrás sé yfirvöldum heimilt að handsama og/eða senda úr landi „alla íbúa, borgara eða þegna óvinaþjóðarinnar sem eru 14 ára og eldri“ án málsmeðferðar.

Þessum lögum hefur aðeins verið beitt þrisvar í sögu Bandaríkjanna. Meðal annars í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. 

Skömmu eftir að fregnir bárust af tilskipuninni setti James E. Boasberg, alríkisdómari í Washington, forsetanum stólinn fyrir dyrnar og sagðist ætla að leggja fram tímabundna skipun sem bannaði ríkisstjórninni að notast við löggjöfina. 

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna áfrýjaði ákvörðun dómarans strax og var meðlimum samtakanna vísað úr landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert