Náttúruhamfaratryggingu Íslands hafa borist alls um 20 tilkynningar um tjón sem varð í flóðum þegar óveður gekk yfir Suðvesturland í byrjun þessa mánaðar, en ekki liggur fyrir enn hvert fjártjónið varð. Þetta segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratryggingar í samtali við Morgunblaðið.
„Stærstu tjónin urðu á Seltjarnarnesi og á Granda, en þar urðu tvö hús hvað verst úti, eitt á hvorum stað,“ segir Hulda Ragnheiður.
„Síðan erum við líka með tilkynningar um tjón á tveimur hafnarmannvirkjum á Suðurnesjum, annað í Reykjanesbæ og hitt í Vogum,“ segir hún og bætir við að nokkurt tjón hafi orðið á Akranesi.
Hulda Ragnheiður segir að bundið sé í lög hvaða tjón komi til kasta Náttúruhamfaratryggingar. Í lögum um Náttúruhamfaratryggingu segir m.a. að tjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða komi til kasta hennar.
Þar segir einnig að skylt sé að vátryggja allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.