Tveir erlendir karlmenn hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa svipt annan mann frelsi og beitt hann ofbeldi og hótunum til að ná af honum verðmætum í júní 2020. Lömdu þeir manninn meðal annars með felgulykli, neyddu hann inn í bifreið og óku á brott.
Ákæran yfir mönnunum tveimur er birt í Lögbirtingablaðinu þar sem ekki hefur tekist að birta öðrum þeirra ákæruna.
Eru árásarmennirnir báðir um 45 ára gamlir og í ákæru sagðir með búsetu í sama húsnæði hér á landi. Samkvæmt þjóðskrá eru þeir hins vegar skráðir búsettir erlendis. Sá sem fyrir árásinni varð er 35 ára og er skráður með lögheimili í Lettlandi, en þegar árásin átti sér stað bjó hann í miðbæ Reykjavíkur.
Samkvæmt ákæru eru árásarmennirnir sagðir hafa mælt sér mót við hann fyrir utan heimili hans í miðbænum. Reyndu þeir að fá hann inn í bifreið, en sá sem fyrir árásinni varð reyndi að hlaupa í burtu. Náðu tvímenningarnir honum og veittust að honum með ofbeldi og spörkum samkvæmt ákæru og sló annar árásarmannanna hann með felgulykli.
Var hann því næst neyddur inn í bílinn og keyrður að Gróttuvita. Á leiðinni til baka þaðan voru mennirnir stöðvaðir af lögreglu í Tryggvagötu.
Fram kemur að á meðan á ökuferðinni hafi staðið hafi þeim sem fyrir árásinni varð ítrekað verið veitt hnefahögg, stungur með felgulykli og þess krafist að hann myndi greiða þeim peninga. Ef hann gerði það ekki væri líf hans í hættu.
Auk þess sem krafist er refsingar í málinu fer sá sem fyrir árásinni varð fram á 1,5 milljónir í bætur í málinu.