Börn sem hafa ekki náð sex mánaða aldri geta fengið bólusetningu við RS-veiru frá og með næsta hausti. Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur heimilað sóttvarnalækni að ganga til kaupa á mótefni við RS-veiru til tveggja ára.
Einnig verður börnum sem fæðast þegar RS-veirufaraldrar ganga yfir boðin bólusetning. Hátt í 4.500 börnum verður boðin bólusetningin næsta vetur.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
RS-veiran er algeng öndunarveirusýking sem gengur í stórum faröldrum yfir vetrartímann og leggst einkum þungt á börn á fyrsta aldursári. Til þessa hafa aðeins fyrirburar og börn með tiltekin heilsufarsvandamál átt kost á bólusetningu gegn RS-veiru, til að verja þau viðkvæmustu fyrir alvarlegum veikindum.
Sýkingar af völdum veirunnar er ein algengasta ástæða innlagna barna um alla Evrópu. Hér á landi hefur innlögnum fjölgað síðastliðin ár og eru langflest barna sem leggjast inn á fyrsta aldursári.
„Það eru stór og mikilvæg tímamót að geta hafið bólusetningu með mótefni við RS-veirunni til að vernda yngstu börnin sem eru viðkvæmust fyrir. Reynsla af efninu er góð og ég hvet foreldra til að þiggja þessa mikilvægu forvörn fyrir börnin sín þegar hún býðst,“ er haft eftir Ölmu Möller.
Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir telur líklegt að reynsla af forvörn gegn RS-veiru muni leiða í ljós margþættan samfélagslegan ávinning. Segir hún að þrátt fyrir umtalsverðan kostnað verði bólusetning ungbarna gegn vírusnum engu að síður hagkvæm þegar upp er staðið.