„Við getum gert mun betur, skýrslan sýnir það. Svo er líka þetta ósamræmi innan kerfa og á milli kerfa og á milli embætta, til dæmis lögregluembætta,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, um niðurstöður skýrslu um barnvæna réttarvörslu, sem kynntar voru í dag.
Skýrslan leiðir í ljós að íslenskt réttarkerfi uppfyllir ekki að fullu alþjóðlegar skuldbindingar um barnvæna réttarvörslu og samræmist framkvæmd í mörgu tilliti ekki réttindum barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Einnig kemur fram að þrátt fyrir almenna viðleitni stofnana til að taka mið af réttindum barna, sé talsvert ósamræmi innan kerfisins hvað varðar skilning mismunandi aðila á hlutverki, skyldum og framkvæmd, bæði innan og utan ákveðinna málefnasviða.
Fram kemur að börn upplifi mörg óþarfa hörku af hálfu lögreglunnar og að ekki sé alltaf hægt að réttlæta beitingu þvingunar. Þá eru frelsissviptingar börnum mjög þungbærar í flestum tilfellum og valda þeim mikilli vanlíðan.
Börn sem neyðarvistuð hafa verið á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, lýsa aðstæðum þar skelfilegum. Umboðsmaður barna hefur ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við að börn séu neyðarvistuð á lögreglustöðinni, enda eru aðstæður þær óviðunandi fyrir börn.
Hafa börn verið vistuð þar frá því í lok október á síðasta ári, þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að börn séu ekki vistuð í fangaklefum, óháð því hvaða ástæður liggja að baki frelsissviptingu. Hefur umboðsmaður sagt að skortur á viðeigandi úrræðum geti ekki réttlætt slíka vistun.
Í samtali við mbl.is segir Salvör ekki nóg að hafa skýran og góðan lagaramma, ef engin úrræði eru til staðar til að fylgja eftir lögum og stefnu stjórnvalda.
Nú sé mikilvægt að koma á fót viðeigandi úrræðum fyrir börn sem glíma við hegðunar- og fíknivanda eða brjóta af sér.
„Það þarf að hafa úthald til að koma þessu á legg, ná árangri og halda árangri, þannig að þetta sé ekki bara gert í átaki á 20 ára fresti. Það liggur alveg fyrir hjá þeim sem vinna í þessum málaflokki, hvað vantar og hvað þarf. Nú þarf að bretta upp ermarnar og láta verkin tala,“ segir Salvör.
Einnig sé mikilvægt að afla betri upplýsinga um afdrif þeirra barna sem glíma við hvað þyngstan vanda.
„Þannig við áttum okkur á því hvaða afleiðingar það hefur að börn eru ekki að fá meðferð eða eru vistuð við óviðunandi aðstæður, til langs tíma.“