Ekki líklegt að kynhlutlaust mál verði „ráðandi“

Eiríkur telur ólíklegt að einhverjar skyndilegar breytingar eða kollsteypur verði …
Eiríkur telur ólíklegt að einhverjar skyndilegar breytingar eða kollsteypur verði á næstunni. mbl.is/Eyþór

„Það er því ekki líklegt að kynhlutlaust mál verði „ráðandi“ í íslensku málsamfélagi í náinni framtíð, ef átt er við að kynjahalla tungumálsins verði útrýmt með öllu,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, í svari á Vísindavefnum.

Svarar hann þar þeirri spurningu hver framtíðarstaða íslenskunnar verði ef kynhlutlaust mál verði ráðandi.

Eiríkur segir þó vel hugsanlegt, þótt ómögulegt sé að fullyrða nokkuð um það, að smátt og smátt dragi úr kynjahalla vegna meðvitaðra aðgerða í þá átt. Það sé ekki líklegt að neinar skyndilegar breytingar eða kollsteypur verði í þessum efnum.

„Hvað sem því líður er engin ástæða til að ætla að breytingar í átt til kynhlutleysis hafi stórvægileg áhrif á framtíðarstöðu íslensku. Eftir sem áður verða þrjú kyn í málinu og þótt innbyrðis verkaskipting þeirra breytist eitthvað, og búin verði til einhver ný hvorugkynsorð í stað karlkynsorða, heldur málið áfram að vera íslenska,“ skrifar Eiríkur.

Íslenska er kynjað mál

Í svari sínu segir Eiríkur að íslenska sé mjög kynjað mál í þeim skilningi að öll fallorð málsins hafi eitthvert þriggja kynja, karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns.

„Kynið er fastur eiginleiki nafnorða þannig að hvert nafnorð er aðeins til í einu kyni (með örfáum undantekningum) en kynið er hins vegar beygingarþáttur í lýsingarorðum, fornöfnum og töluorðum – þau geta staðið í hvaða kyni sem er og þiggja kyn sitt oftast frá nafnorði. Það væri vitanlega gerbreyting á málinu ef nafnorð yrðu kynlaus eða lýsingarorð, fornöfn og töluorð hættu að beygjast í kynjum, enda hefur engum dottið neitt slíkt í hug. Umræða um svokallað kynhlutleysi málsins snýst ekki um neitt í þá veru, heldur um tengslin milli málfræðilegs kyns og líffræðilegs kyns eða kynvitundar fólks,“ skrifar Eiríkur.

Kynjahallinn er mikill

Hann segir að halda megi því fram að í íslensku sé mikill kynjahalli, tungumálið sé mjög karllægt. Með því sé átt við að málfræðilegt karlkyn er mjög oft notað án þess að vísað sé, eingöngu, til karla.

„Þetta kemur einkum fram á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er karlkyn oft notað í vísun til einstaklinga og hópa sem eru óskilgreindir eða ekki afmarkaðir – allir eru velkomnir, fjórir eru slasaðir, enginn er ómissandi. Í öðru lagi er karlkynsorðið maður, sem oft merkir eingöngu ‚karlmaður‘ (maður og kona, maðurinn minn), einnig notað í almennri merkingu – maðurinn er spendýr, menn eru í vafa. Í þriðja lagi eru langflest starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti karlkyns – formaður, vísindamaður, forstjóri, skipherra, barþjónn, tölvunarfræðingur, kennari, Íslendingur, Dani,“ skrifar Eiríkur.

Öll eru velkomin

Hann fer svo yfir það að á síðustu árum hafi verið gerðar ýmsar tilraunir til að draga úr kynjahallanum og færa málið í átt til kynhlutleysis, svo sem að nota hvorugkyn sem hlutlaust kyn í stað karlkyns, vísun í hópa með óþekkta kynjasamsetningu, öll eru velkomin, fjögur eru slösuð og svo framvegis.

„Einnig hefur verið reynt að draga úr notkun orðsins maður og samsetninga af því, bæði með því að nota orð eins og manneskja og man og með því að búa til samsetningar með -fólk í stað -maður (til dæmis stjórnmálafólk, þingfólk) eða samsetningar með -kona við hlið samsetninga með -maður (til dæmis þingkona). En fjölmörg vandamál og vafamál koma upp í tengslum við slíkar breytingar – þetta er enn stutt á veg komið og óljóst hvernig það á eftir að þróast,“ skrifar Eiríkur.

Hann segir að líklegast yrði snúnast að fást við starfs-, hlutverks- og íbúaheitin. Þó að þessi heiti séu málfræðilega karlkyns eru þau eigi að síður kynhlutlaus í þeim skilningi að þau eru notuð um fólk af öllum kynjum.

„Augljóslega væri meiriháttar mál að búa til hvorugkynsorð í stað þeirra allra og litlar líkur á að það verði gert í fyrirsjáanlegri framtíð, enda oft haldið fram að það sé fullkomlega ástæðulaust því að málfræðilegt kyn og kyn fólks sé tvennt ólíkt,“ skrifar Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka