Forsendur brostnar

„Kannski þýðir það að þetta sé bara að fara að …
„Kannski þýðir það að þetta sé bara að fara að verða búið,“ segir Þorvaldur. Samsett mynd mbl.is/Arnþór Birkisson/mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að ekki sé hægt að segja til um hvort eða hvenær það gjósi næst á Reykjanesskaganum. Þær forsendur sem hafi verið notaðar til að tímasetja fyrri gos séu brostnar.

Síðasta gos á Sundhnúkagígaröðinni var 20. nóvember 2024 og entist fram til 9. desember. 

Spár um hvenær næsta gos gæti brotist upp hafa hingað til ekki gengið eftir.

Kúrfan að fletjast út

„Það virðist nú vera frekar rólegt á Reykjanesinu að mestu leyti. Það eru einhverjir smáskjálftar í kringum Sundhnúkagíga en það virðist ekki vera neitt svakalegt í gangi þar,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

„Það virðist hafa hægst verulega á þessu landrisi. Það er orðið ansi flatt.“

Hann segir landrisið hafa verið mjög hægt í mars og að sú kúrfa sem hafi verið að lyftast sé nú að fletjast út.

„Kannski þýðir það að þetta sé bara að fara að verða búið.“

Brostnar forsendur

Hann segir þó að það sé mikilvægt að hugsa til þess að þær forsendur sem notaðar hafa verið til þess að tímasetja fyrri gos séu í raun brostnar og því ónothæfar til þess að spá um fyrir næsta gos.

Því segir hann gos allt eins geta hafist á morgun eða eftir viku, ef einhvern tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert