Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra kveðst hafa lent í vandræðum með lýsingu og smátt letur þegar hann flutti ræðu á leiðtogafundi menntaráðstefnunnar ISTP í Hörpu í gær.
Ræðan, sem var á ensku, vakti nokkur viðbrögð og hefur fólk á samfélagsmiðlum jafnvel sett spurningarmerki við kunnáttu ráðherrans í tungumálinu.
Spurður út í þau viðbrögð, og hvort komið hafi til greina að tala á íslensku og fá túlk sér við hlið, segir Guðmundur Ingi að flutning ræðunnar hafi borið brátt að. Hann var enda skipaður í embætti á sunnudag.
„Ég ákvað að gera þetta, en ég lenti í smá vandræðum með ljós og litla stafi. Þetta rann eiginlega saman,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is í dag.
„Þannig að eftir á að hyggja, jú, en þetta var allt í lagi. Eins og ég segi, fall er fararheill.“
Guðmundur segist ekki hafa talað á ensku í langan tíma, sennilega í einhverja áratugi.
Spurður hvort hann ætli að flytja ræður á ensku í framtíðinni svarar hann játandi og segir að um frávik hafi verið að ræða.