„Kemur skemmtilega á óvart“

Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson.
Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

„Þetta kemur okkur skemmtilega á óvart það verðum við að segja,“ sagði Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson bætti við: „Ég tek undir það“, þegar þau tóku á móti heiðursverðlaunum Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar, ÍKSA, við hátíðlega athöfn á Hilton-hóteli fyrr í kvöld.

Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson
Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson mbl.is/Ásdís

„Það er ómetanlegt að hafa fengið að vera hluti af sögu íslenskrar kvikmyndagerðar frá svo gott sem upphafi, eða frá því að kvikmyndavorið brast á og við fórum að gera kvikmyndir í einhverjum mæli – og ekki síður að hafa fengið að vera viðloðandi bransann allt fram á þennan dag. Við þökkum fyrir það og um leið þessa óvæntu viðurkenningu,“ sagði Tinna meðal annars í þakkarræðu þeirra hjóna.

Tinna rifjaði upp að þau Egill hafi verið ung og áhugasöm þegar kvikmyndavorið brast á. „Bæði virk í leikhúsunum og svo var auðvitað tónlistarbransinn, þar sem Egill var marghamur, en heimur kvikmyndanna heillaði með allt sitt nýjabrum og alla sína möguleika til að að tjá og túlka.

Fylgst með kvikmyndatökum á Egilstaðaflugvelli. Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson.
Fylgst með kvikmyndatökum á Egilstaðaflugvelli. Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson.

Og svo fór að við vorum kölluð til og höfum í gegnum tíðina átt aðkomu að fjölda kvikmynda og sjónvarpsmynda, saman eða í sitthvoru lagi og aðalhlutverkin eru orðin nokkuð mörg, eða samtals hátt á þriðja tuginn. Auk þess stofnuðum við þrjú framleiðslufyrirtæki í samstarf við afburðafólk í bransanum sem öll gerðu bíómyndir, að vísu bara eina eða tvær hvert, af því að hver mynd var slíkt átak og kostaði eiginlega bæði svita og tár, látum blóðið liggja á milli hluta.

Þetta var frumkvöðla starf og styrkir ákaflega takmarkaðir – það á svo sem við enn í dag - en við erum að tala um allt niður í 10% af kostnaði. En það var ekki bara fjármagn sem skorti á þessum björtu vordögum í bransanum það skorti líka þekkingu á svo ótal mörgum sviðum, og það þrátt fyrir að við ættum orðið handfylli af menntuðum kvikmyndaleikstjórum. Störfin eru svo mörg og flestallir voru að vinna við miðilinn í fyrsta sinn. En viljinn flytur fjöll og eins og svo margir aðrir, lögðum við Egill allt undir og gengum í flest störf, hvort sem það var leikur og söngur, handritsvinna, tónsköpun, aðstoðarleikstjórn, framleiðslustjórn, eða einfaldlega bara að vera hlauparar, burðarmenn og reddarar, og jafnvel allt í senn. Og við vorum bara nokkuð heppin, sluppum fyrir horn fjárhagslega og græddum jafnvel smávegis í einn myndanna, meðan við töpuðum svo á þeirri næstu, en þá var bara að bíta á jaxlinn og vinna fyrir skuldunum. En allt var þetta þess virði.

Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir.
Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það má vissulega halda því fram að það hafi ekki allt lukkast, en það er huti af þroskaferlinu og það á við um allar listgreinar, sumt botnfellur, meðan annað lifir af og nær máli. En svo mikið er víst að við getum öll verið stolt af þessari ungu listgrein á Íslandi, íslenskri kvikmyndagerð.

Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson
Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Við erum öll í heiminum og heimurinn er einn, sama kvikan bærist innra með okkur öllum og góð kvikmynd getur farið svo nærri því að komast að einhverjum sammannlegum kjarna og þegar allt fellur saman og úr verður heildstætt listaverk geta áhrifin orðið svo sterk að við sem áhorfendur verðum ekki söm á eftir. Eitthvað situr eftir, eitthvað sem opnar glufur inn í aukinn skilning, víðari sýn á manneskjuna – á heiminn. Listin er mannbætandi þegar best lætur og þar er kvikmyndalistinn svo sannarlega einn af beittustu hnífunum í skúffunni.
Við verðum að halda áfram að skapa og búa til - við eigum erindi við heiminn, rétt eins og heimurinn á erindi við okkur. Við höfum svo ótalmargar sögur að segja og á hvíta tjaldinu rata þær víða og fá margháttaða skírskotun.

Lifi íslensk kvikmyndagerð!“

Rætt er ít­ar­leg­ar við heiður­sverðlauna­hafa árs­ins, þau Egil Ólafs­son og Tinnu Gunn­laugs­dótt­ur, á menn­ing­arsíðum Morg­un­blaðsins á föstu­dag­inn kem­ur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert