„Mann langar að drepa sig þarna, gjörsamlega“

Börn lýsa skelfilegri upplifun af því að vera lokuð inni …
Börn lýsa skelfilegri upplifun af því að vera lokuð inni í fangaklefum. Samsett mynd/Colourbox/Aðsend

Börn sem lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af upplifa mörg hver óþarfa hörku af hálfu lögreglunnar og að beiting þvingunar eigi ekki alltaf rétt á sér, að þeirra mati.

Dæmi eru um að börn hafi slasast við handtöku, meðal annars fengið brunasár og mar undan handjárnum.

Þá eru frelsissviptingar börnum mjög þungbærar í flestum tilfellum og valda þeim mikilli vanlíðan. Börn sem neyðarvistuð hafa verið á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, lýsa aðstæðum þar skelfilegum. 

„Mann langar að drepa sig þarna, gjörsamlega,“ sagði eitt barn þegar það var beðið um að lýsa því hvernig væri að vera á Flatahrauni. Annað barn lýsti því sem „helvíti“ að vera í fangaklefa.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu umboðsmanns barna, þar sem gerð er grein fyrir úttekt á barnvænni réttarvörslu og niðurstöðum könnunar um framkvæmdina, sem kynnt var í dag.

Leiðir hún í ljós að íslenskt réttarkerfi uppfyllir ekki að fullu alþjóðlegar skuldbindingar um barnvæna réttarvörslu og samræmist framkvæmd í mörgu tilliti ekki réttindum barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Talsvert ósamræmi innan kerfisins 

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að þrátt fyrir almenna viðleitni stofnana til að taka mið af réttindum barna, sé talsvert ósamræmi innan kerfisins hvað varðar skilning mismunandi aðila á hlutverki, skyldum og framkvæmd, bæði innan og utan ákveðinna málefnasviða. Ljóst sé að þörf er á aukinni samræmingu innan fagstétta og að margvíslegar úrbætur eru nauðsynlegar til að styrkja réttindi barna innan réttarkerfisins. 

Í því skyni að greina að hversu miklu leyti réttarkerfið á Íslandi samræmist kröfum um barnvæna réttarvörslu framkvæmdi umboðsmaður barna könnun meðal þeirra fimm málefnasviða sem úttektin nær til: lögreglumála, dómsmála, barnaverndarmála, útlendingamála og málefna sýslumanna. 

Könnunin var lögð fyrir öll lögregluembætti landsins, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara.  Alla héraðsdómstóla landsins, Landsrétt og Hæstarétt. 

Auk þess var hún lögð fyrir allar barnaverndarþjónustur og umdæmaráð, Útlendingastofnun, sýslumenn og Barna – og fjölskyldustofu, n.t.t. neyðarvistun Stuðla og Barnahús. 

Þá var óskað eftir viðbótarupplýsingum um frelsissviptingu barna og einnig áttu sér stað samtöl við börn.

Skýrsla umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu var kynnt á Þjóðminjasafninu …
Skýrsla umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu var kynnt á Þjóðminjasafninu í dag. mbl.is/Karítas

Lítill samhljómur á milli lögregluembætta

Niðurstöður könnunarinnar benda meðal annars til þess að almennt séu ekki til staðar skýrar verklagsreglur sem öllum lögregluembættum er gert að fylgja varðandi tilefni, nauðsyn og hámarkstíma frelsissviptingar. Slíkar verklagsreglur eru hins vegar í gildi á neyðarvistun.

Þá er lítill samhljómur um það innan lögregluembætta hvort börnum sé haldið aðskildum frá fullorðnum og það hvort í gildi séu skýrar reglur sem ávarpa réttindi barna í samskiptum við lögreglu. Einnig sé ekki ljóst hvort upplýsingar um réttindi barna í samskiptum við lögreglu séu aðgengilegar.

Viðtöl við börn leiddu í ljós að mörg þeirra upplifðu óþarfa hörku af hálfu lögreglunnar og að ekki væri alltaf hægt að réttlæta beitingu þvingunar. Þrátt fyrir að lögregluyfirvöld telji sig leggja áherslu á meðalhólf og barnavæna málsmeðferð, benda frásagnir barnanna til annars.

Kom það sérstaklega kom fram að börn töldu sig ekki fá nægjanlega skýrar upplýsingar um stöðu sína og réttindi, sérstaklega við handtöku og skýrslutöku.

„Frekar mikil harka“

Upplifðu mörg börn að handtökur hefðu verið framkvæmdar af óþarfa hörku og virðingarleysi. Þá kom fram að handjárn væru oft óþarflega þröng og nokkur börn sögðust hafa fengið mar eftir handjárn.

Fram kom að börnin vilja fá tækifæri til þess að útskýra mál sitt áður en hörku er beitt og að á þau sé hlustað í samskiptum við lögregluna. Þá leggja þau áherslu á að meðalhófs sé ávallt gætt við handtöku.

Eitt barn sem spurt var hvernig því hefði fundist að vera handtekið, svaraði á þá leið:

„Frekar mikil harka, stundum veit ég ekki neitt af hverju þau eru að handtaka mig. Bara tekinn niður og margir ofan á þér. Handjárnin eru stundum alveg þröng sko.“

Einnig var spurt hvort lögreglan hefði meitt viðkomandi við handtöku:

„Já, var með svona brunasár og mar eftir handtöku.“

„Maður verður geðveikur þarna inni“

Sérstaklega var rætt við börnin um frelsissviptingu og upplifun þeirra af henni, meðal annars á lögreglustöðunni á Flatahrauni í Hafnarfirði þar sem neyðarvistun hefur farið fram síðan í lok október á síðasta ári.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við notkun lögreglustöðvarinnar fyrir neyðarvistun, enda sé aðstaðan þar óboðleg börnum.

Maður verður geðveikur þarna inni,“ sagði eitt barnið um vistunina.

„Mátt ekki hringja neitt, enginn að koma í heimsókn. Einu sinni var sjónvarpið bilað og ég var bara að stara á vegginn í einhverja daga,“ sagði annað barn sem greinilega var vistað á Flatahrauni í nokkra daga, en dæmi eru um að börn hafi verið vistuð þar allt að sex sólarhringa í senn. 

Börnin voru spurð út aðstöðuna á Flatahrauni og svaraði eitt barnanna á þá leið:

„Sko þegar þú kemur þarna, löggurnar eru svo ýktar alltaf eitthvað rosa, þurfa að láta eins og þeir ráða, auðvitað ráða þeir en þeir þurfa að sýna það svo mikið að ég hef ekkert vald þarna, alltaf verið að minna mann á það að ég sé þarna af ástæðu. Maður labbar þarna inn og það er gangur og svo bara klefi, bara læstur þarna inni og lítið gat sem þú getur talað í gegnum og lítil dolla, eða svona stálklósett.“

Er hurðin sem sagt lokuð og læst? 

„Já, en það er opið bara svona gat svo þú getir talað. En ég hef einu sinni verið þarna bara einn og þá fékk ég að vera með opna hurð. Ég var í blackouti og þá þurfti ekki að læsa mig inni.“

Hvernig fannst þér að vera í fangaklefa á lögreglustöð? 

„Þú ert bara þarna og lögga standandi yfir þér, getur ekki gert neitt nema bíða.“

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upplifun barnanna neikvæðari

Niðurstöður könnunarinnar sýna einnig að þrátt fyrir ágæta lagalega umgjörð um réttindi barna er ljóst að skortur er á útfærslu í framkvæmd, einkum varðandi upplýsingagjöf, aðlögun málsmeðferðar að börnum og tryggingu fyrir þátttöku þeirra í eigin málum.

Þá er upplifun barnanna af réttarkerfinu oft neikvæðari en mat stofnana gefur til kynna. Benda niðurstöður til þess að börn upplifi sig oft vanmáttug í samskiptum við réttarkerfið og upplifa sig ekki sem raunverulega þátttakendur í málsmeðferð.

Börn sem höfðu reynslu af dómsmálum lýstu því að þau skildu almennt ekki það sem fór fram í dómsalnum. Þau fengju almennt ekki upplýsingar um vinnslu máls, framvindu eða ferlið í heild sinni. Og upplifðu sig í raun ekki þátttakendur í eigin málum.

Almennt virðist vera góð þekking á hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu innan réttarkerfisins og íslenskrar stjórnsýslu, en ljóst er að takmörkuð fræðsla hefur átt sér stað hjá stofnunum ríkisins, þó áhuginn sé til staðar. Þá sýna niðurstöðurnar einnig að um helmingur stofnana hefur ekki gripið til sérstakra ráðstafana til að tryggja barnvænni málsmeðferð.

Skýrsluhöfundar segja niðurstöðurnar sýna að bæta þurfi verulega aðgengi barna að upplýsingaefni innan réttarkerfisins, bæði hvað varðar beina upplýsingagjöf til barna við málsmeðferð og almennar upplýsingar sem aðgengilegar eru börnum um hlutverk stofnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert