Grjótskriða féll á fjölfarinn slóða sem ferðamenn ganga um þegar haldið er í jöklaferðir á Sólheimajökul.
Myndskeið náðist af skriðunni sem féll í morgun á svæði þar sem ferðamenn höfðu verið skömmu áður.
Á svæðinu er einnig stígur sem lagður hefur verið en skriðan lenti skammt frá. Ferðamenn fara þó gjarnan um þann slóða sem lenti undir, þegar þeir fikra sig að jöklinum.
Þrjú fyrirtæki eru með aðstöðu á svæðinu vegna ferða á jökulinn. Það eru Tröllaferðir, Mountain guides og Arctic adventure. En einnig er fjöldi einyrkja sem býður upp á ferðir á jökulinn og notast við sérútbúna bíla til þess.
Að sögn Elínar Sigurveigar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Icelandic Mountain Guides, var fyrirtækið ekki með starfsemi á svæðinu í dag vegna mikillar úrkomu undanfarið.
„Ég var búin að heyra af þessu hruni,“ segir Elín.
Ekki náðist á talsmann landeigenda við vinnslu fréttarinnar.