Fregnir herma að lóan sé komin til landsins. Sést hefur til lóu á Miðnesheiði, milli Garðs og Sandgerðis, sem ekki er talin hafa haft hér vetursetu líkt og margar lóur gera.
Vorboðinn ljúfi hefur yfirleitt sést um þetta leyti, síðustu daga marsmánaðar. Birgir Gunnlaugsson fuglaáhugamaður var á ferðinni á Miðnesheiði í gær en kona hans taldi sig sjá lóu á þessum slóðum er hún var að viðra þar hundinn í gærmorgun. Að sögn Birgis hefur ekki heyrst eða sést til lóu á þessum slóðum í vetur.
Farfuglarnir hafa oft fyrst numið hér land á Suðausturlandinu, kringum Höfn í Hornafirði. Brynjúlfur Brynjólfsson, fuglaáhugamaður á Höfn, sagðist í samtali við mbl.is ekki hafa heyrt af lóunni í sumarbúningi á þessum slóðum en stutt gæti verið í hana miðað við fyrri ár.