Segir afstöðu ráðherra lýsa skilningsleysi

Sigrún Birgisdóttir er ráðgjafi hjá Einhverfusamtökunum. Hún segir afstöðu heilbrigðisyfirvalda …
Sigrún Birgisdóttir er ráðgjafi hjá Einhverfusamtökunum. Hún segir afstöðu heilbrigðisyfirvalda lýsa skilningsleysi á þörfum skjólstæðinga Janusar endurhæfingar. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðisráðuneytið virðist ekki skilja þarfir þeirra sem notið hafa endurhæfingar hjá Janusi. Þetta segir Sigrún Birgisdóttir, ráðgjafi hjá Einhverfusamtökunum. 

Í samtali við mbl.is vísar hún til ummæla Ölmu Möller heilbrigðisráðherra, sem féllu í Kastljósi á mánudag um að heilbrigðisráðuneytið greiði ekki fyrir starfsendurhæfingu þar sem það sjái einungis um heilbrigðisþjónustu.

„Þessi afstaða lýsir að okkar mati skilningsleysi á þörfum þessa hóps – það sjá það allir að um er að ræða geðheilbrigðisþjónustu sem vissulega heyrir undir ráðuneytið. Þessi hópur þarf heilbrigðistengda geðendurhæfingu á forsendum virkni og bættrar líðan, ekki endilega starfstengda endurhæfingu. Þau eru mörg hver ekki komin á þann stað og eiga langt í land með að vera fær um að sinna starfsendurhæfingu,“ segir Sigrún.

Lýsa þungum áhyggjum

Geðendurhæfingarúrræðið Jan­us mun loka 1. júní vegna skorts á fjár­magni.

Fagaðilar og aðstandendur skjólstæðinga hafa lýst þungum áhyggjum af framhaldinu en óljóst er hvað tekur við fyrir skjólstæðinga þegar úrræðinu verður lokað.

Gefið hefur verið í skyn að endurhæfing verði tryggð fyrir hópinn en lítið hefur verið um raunveruleg svör. Því hafa áhyggjur af skilningsleysi stjórnvalda á þjónustuþörfum þessa hóps vaxið meðal fagaðila og aðstandenda.

Einhverfusamtökin, Geðlæknafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Píeta samtökin og Geðhjálp sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem meðal annars er efast um hæfi Virk til að sinna þessum hópi og skorað á rík­is­stjórn­ Kristrúnar Frostadóttur að axla ábyrgð á málinu og tryggja þá ein­stak­lings­miðuðu þjón­ustu sem hópurinn þarf. 

„Það er aldrei að fara að ganga upp“

„Í rauninni ætti þessi hópur ekki að heyra undir Virk. Hann þarf miklu meiri þjónustu og af öðrum toga. Hann þarf heilbrigðistengda geðþjónustu af hendi fagfólks. Hjá Janusi er verið að endurhæfa fólk út í lífið, þjálfa hjá því ákveðna sjálfsbjargarviðleitni og getu til þess að fara fram úr á morgnana, nærast og sjá um sig sjálft. Endurhæfingin byrjar oft á þeim forsendum og ég er sannfærð um að þetta hafi forðað mörgum frá sjálfsskaða eða sjálfsvígi,“ segir Sigrún.

„Að ætla að gera þá kröfu á þennan hóp sem Virk gerir á þá endurhæfingarstaði sem þeir semja við, varðandi mætingarskyldu, framvindu og annað, er bara galið. Einfaldlega vegna þess að margir eru ekki færir um að mæta fyrst um sinn. Sumir geta skilað kannski einum eða tveimur tímum á viku fyrstu mánuðina.“

Sigrún vísar í skýrslu frá félagsmálaráðuneytinu um starfsemi Virk, sem kom út árið 2022. Þar kemur fram að eftir að þessir staðir fóru að heyra undir Virk, í stað þess að vera undir félagsmálaráðuneytinu eins og þeir voru, hafi sá tími sem fólk hefur til endurhæfingar styst og það fjármagn sem fer til þessara staða minnkað.

Þá segir hún meiri kröfur gerðar um hraða og skortur sé á fjölbreytni fagaðila sem koma að endurhæfingunni.

„Ég veit að Virk stefnir að því að senda hluta af hóp Janusar í Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu, þar sem er mætingarskylda, það er aldrei að fara að ganga upp. Miðað við þetta þá grunar mig að það skorti þekkingu á þörfum þessa hóps, þó að öðru sé lýst yfir.

Okkar hópur þarf miklu meiri tíma, einstaklingsmiðaða og geðheilbrigðismiðaða nálgun, að öll þjónusta sé á sama stað og greiðan aðgang að geðlæknum.“

„Hvort tveggja fái að þróast áfram“

Hvað er það sem þið mynduð vilja sjá gerast?

„Við viljum að nægilegt fjármagn sé lagt í Janus, eða annað sambærilegt úrræði til að þessi hópur geti áfram fengið þjónustu við hæfi. Það vantar tilfinnanlega geðheilbrigðis- og endurhæfingarþjónustu fyrir þennan hóp.“

Sigrún vitnar í skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið gaf út í október á síðasta ári um geðheilbrigðisþjónustu fyrir einhverfa 18 ára og eldri. Í þeirri skýrslu komi meðal annars fram að það verði að stofna þjónustu og þekkingarsetur fyrir þennan hóp.

„Ég myndi hreinlega vilja að þekkingar og þjónustusetur verði stofnað við hliðina á Janusi eða sambærilegu úrræði og að hvort tveggja fái að þróast áfram.“

Væri það þá óháð öðrum endurhæfingarúrræðum?

„Það er kannski allt í lagi að hafa það í tengslum við önnur úrræði en það þarf að vera fjármagnað sérstaklega. Einhverjir gætu náð það langt í sinni endurhæfingu að þeir gætu hugsanlega farið í önnur úrræði og út á vinnumarkað í framtíðinni. Þó að hluti þeirra hjá Janusi fari ekki á vinnumarkað, þá verður að reyna að koma fólki í virkni og fyrirbyggja eins og mögulegt er að stór hluti þeirra fari á örorku.

Það eitt að Virk skuli synja fólki um endurhæfingu, meðal annars þessum hópi, sem þau hafa ítrekað gert í gegnum árin, er að valda miklum vandræðum vegna þess að til að komast á endurhæfingarlífeyri þarftu að vera í virkri endurhæfingu. Ef þú ert ekki í virkri endurhæfingu þá geturðu ekki sótt um endurhæfingarlífeyri og getur ekki sótt um örorkulífeyri í framhaldinu. Þá ertu í raun á framfæri foreldra eða félagsþjónustunnar.“

„Það gleymist í umræðunni“

Eins og fyrr segir er það mat Sigrúnar að stór hluti skjólstæðinga Janusar geti endað á örorku þrátt fyrir endurhæfingu. Endurhæfingin snúist þó um að koma þeim á þann stað að þau geti sinnt daglegu lífi, farið fram úr á morgnana og sinnt eigin grunnþörfum. Þar á eftir sé möguleiki fyrir marga þeirra að sinna starfsendurhæfingu á borð við Virk, en ekki alla.

Spurð álits á umræðunni í kringum kostnað ríkisins varðandi Janus annars vegar og örorkubætur hins vegar, svarar Sigrún:

„Það gleymist í umræðunni að ef þau fá ekki þessa endurhæfingu, þá er annar hópur að lenda á örorkubótum líka og það eru oftast mæðurnar, ef þær eru til staðar, sem þurfa að sinna þessum hópi. Þær eru nú þegar ansi margar komnar í langtíma veikindaleyfi vegna álags og/eða á endurhæfingarlífeyri. Ég þekki margar mæður í samtökunum sem eru komnar á örorkulífeyri útaf álagi vegna aðstæðna barna þeirra. Það er þessi hópur sem gleymist og það er ansi dýrt fyrir samfélagið.“

Álagið á foreldra og fjölskyldur ungmenna með fjölþættan vanda getur verið gríðarlegt. Þeir hafa barist fyrir þjónustu fyrir börnin sín en oft mætt hindrunum og lokunum í kerfinu, að sögn Sigrúnar er upplifunin eins og hlaupið sé stöðugt á vegg. Þá segir hún marga foreldra vera að sinna því sem félagsþjónusta ætti að vera að sinna.

„Þegar foreldrar hafa ítrekað reynt að tryggja börnum sínum nauðsynlega aðstoð yfir langan tíma er ekki óalgengt að þeir verði fyrir heilsutjóni eða upplifi kulnun. Þetta hefur ekki aðeins alvarleg áhrif á foreldra heldur veldur einnig miklum kostnaði fyrir kerfið í heild.“

„Þetta er mjög margþætt“

„Það liggur því við að foreldrar þurfi tvöfaldar tekjur til að geta haldið börnunum sínum uppi,“ segir Sigrún. Félagslegar bætur séu mikið lægri en örorkubætur.

Ef ungmennin lenda á félagslegum bótum frekar en örorkubótum er það mat Sigrúnar að það geti talist misnotkun á sjóðum sveitarfélaganna, „en það er aðeins gert af illri nauðsyn“.

„Það á ekki að vera hlutverk sveitarfélaganna að halda uppi ungmennum sem vitað er að komast ekki inn á atvinnumarkað. Það er örorkulífeyriskerfið sem á að halda þeim uppi, ekki félagsbótakerfið. Það verður að einfalda þeim að komast inn í örorkukerfið þegar það á við. Þetta er mjög margþætt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka