Setur viðmið um andlátsfréttir

Ríkisútvarpið hefur nú sett sérstök viðmið um hvernig segja skuli …
Ríkisútvarpið hefur nú sett sérstök viðmið um hvernig segja skuli frá andláti þekktra einstaklinga, en það var gert í kjölfar gagnrýni. mbl.is/Eggert

Ríkisútvarpið hefur sett sér viðmið um hvernig að verki skuli staðið þegar greint er frá andláti fólks í fréttum stofnunarinnar.

Í kjölfar háværrar gagnrýni á fréttaflutning Ríkisútvarpsins um fráfall Benedikts Sveinssonar, lögmanns, athafnamanns og föður Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra, var haft eftir Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra að gerð yrðu „formleg viðmið um ritun og birtingu andlátsfrétta, efnistök þeirra og framsetningu“ og í framhaldinu spurðist Morgunblaðið fyrir um hvaða viðmið giltu í slíkum fréttaflutningi. Svar hefur nú borist frá stofnuninni.

Kemur þar fram að fréttastofan segi frá andlátum þjóðþekkts fólks, sem haft hafi bein eða óbein áhrif á samfélagið, en engin leið sé að setja algildar reglur þar um.

Ákvörðun um andlátsfrétt sé háð mati. Horft sé til þess hvort viðkomandi sé þjóðþekktur, hafi haft mikil áhrif á samfélagið og hvort andlátið veki mikla athygli.

Andlátsfréttir lúti í grunninn sömu reglum og viðmiðum og gildi um aðrar fréttir.

„Fréttastofan skuldbindur sig ekki til að einskorða umfjöllun um andlát við það sem fram kemur í tilkynningu, frekar en í öðrum fréttaflutningi,“ segir í viðmiðunum sem og að fréttir af andlátum séu viðkvæmar og því fluttar af nærgætni og af virðingu við hinn látna og aðstandendur hans.

„Í andlátsfréttum eru ævi og störf hins látna rakin stuttlega og tíundað með hvaða hætti hann hafði áhrif á samfélagið og fyrir hvað hann var helst í opinberri umræðu. Stundum kann að reynast nauðsynlegt að geta erfiðra mála sem litað hafa ævi og feril viðkomandi. Það skal þá gert af smekkvísi,“ segir þar.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka