„Það gilda mjög ákveðnar reglur“

Strangar reglur gilda um skráningu ættleiddra í Íslendingabók.
Strangar reglur gilda um skráningu ættleiddra í Íslendingabók. mbl.is/Karítas

„Við birtum engar upplýsingar í þessum tilvikum nema það sé með vitund eða beinlínis komið frá viðkomandi,“ segir Friðrik Skúlason, einn aðstandenda Íslendingabókar.

Morgunblaðinu barst ábending frá lesanda um að forvitnilegt gæti verið að kanna hvernig skráningum á ættleiddum börnum væri háttað í Íslendingabók. Hvort þau væru skráð með sama hætti og önnur börn foreldra eða hvort það hefði áhrif á skráningu að kjörforeldrar þeirra væru ekki blóðforeldrar.

Friðrik segir í samtali við Morgunblaðið að í Íslendingabók séu einstaklingar tengdir foreldrum sínum eftir bestu fáanlegu heimildum. Alla jafna sé stuðst við þjóðskrá, kirkjubækur, manntöl eða útgefin ættfræðirit.

„Það gilda mjög ákveðnar reglur um þetta. Annars vegar er notast við opinberar upplýsingar en hins vegar við upplýsingar sem hlutaðeigandi sendir okkur beint,“ segir hann.

Þannig er ættleiddur einstaklingur aðeins tengdur kjörforeldrum sínum í Íslendingabók jafnvel þótt almennt sé vitað að hann sé ættleiddur. „Ef einstaklingurinn vill hins vegar sjálfur vera tengdur við sína blóðforeldra og þeir gera ekki athugasemdir við það þá getur hann fengið þá skráða. Í þessu tilviki er þó réttur blóðforeldra til að vera ekki tengdur viðkomandi sterkari,“ segir Friðrik. Vísar hann þar til þess að ef einhver gefur barn til ættleiðingar þá er það ekki lengur barn viðkomandi. Því sé það réttur hans að upplýsingar þar að lútandi séu ekki birtar opinberlega.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka