16 þúsund manns á Íslandi hafa fengið boð um þátttöku í tímamótarannsókn á lífsgæðum eftir krabbamein.
Í tilkynningu frá Krabbabeinsfélaginu segir að um sé að ræða stærstu rannsókn sinnar tegundar hér á landi en markmið hennar er að afla frekari upplýsinga um líf fólks sem lifir af krabbamein.
„Eftir krabbameinsgreiningu og meðferð býr fólk oft við langvinn áhrif og afleiðingar, svo sem skyntruflanir, ófrjósemi, síþreytu og stoðkerfisvanda svo einhver dæmi séu nefnd. Ætlunin er að skilja betur þessi áhrif svo hægt sé að bjóða úrræði og aðstoð sem bætir líf fólks,“ segir í tilkynningunni.
Rannsóknin er unnin af Krabbameinsfélaginu í samstarfi við Landspítala, Háskóla Íslands og alþjóðlegan samstarfsaðila. Boð um þátttöku fá bæði þau sem greinst hafa með krabbamein síðustu tíu ár og samanburðarhópur úr hópi almennings.
Í dag greinist þriðji hver Íslendingur með krabbamein á lífsleiðinni en þrjú af fjórum lifa, sem eru tvisvar sinnum fleiri en fyrir 50 árum. Gert er ráð fyrir að lífslíkur muni enn aukast í framtíðinni með snemmtækum greiningum og nýjum meðferðum.
Á Íslandi eru nú um 18.500 manns á Íslandi sem hafa lifað af krabbamein og hópurinn verður sífellt fjölmennari. Lítið er þó vitað um líf fólks sem lokið hefur meðferð og nauðsynlegt er að öðlast frekari vitneskju. Ákveðinn hópur býr við langvinnar og síðbúnar aukaverkanir eftir meðferð og mörg hver þurfa betri stuðning en býðst í dag. Með réttum úrræðum geta fleiri notið lífsins og samfélagið notið krafta þeirra.