Vagnbílstjórum Strætó sem eiga leið um Mjódd hefur verið ráðlagt að hafa ekki afskipti af ungmennum sem hafa verið með dólgslæti og ógnandi hegðun í vögnum samlagsfélagsins.
Jóhannes Svavar Skúlason forstjóri Strætó segir reglulega koma upp pústra í strætó vegna ungmenna sem koma inn í strætisvagna í Mjódd í Breiðholti þar sem ófremdarástand hefur ríkt vegna ungmennahóps eða hópa sem látið hafa ófriðlega.
Hann segir vagnstjóra hafa kvartað undan því að ástandið hafi versnað hratt á tiltölulega skömmum tíma.
„Vagnstjórarnir hafa rætt það sín á milli að þetta umhverfi í Mjóddinni hafi bitnað á strætóbílstjórum líka. Strætóbílstjórarnir fá þau fyrirmæli að koma sér ekki í aðstæður sem þeir ráða ekki við. Þeir reyna því að gera sem minnst,“ segir Jóhannes.
Hann segir hóp ungmenna oft koma inn í strætó í Mjódd þar sem hann er með dólgslæti og ógnandi hegðun gagnvart farþegum.
„Bæði eru þetta ungmenni sem eru á leið frá A til B en einnig er þessi ófriður fyrir utan vagnana. Þetta lýsir sér í ógnandi hegðun, munnbrúki og látum auk þess sem ungmennin eru að reykja og veipa í strætó. Menn óttast að þetta endi illa en vagnstjórarnir eru með skýr fyrirmæli um að blandast ekki í neitt en að hringja þess í stað í lögregluna sem hefur brugðist skjótt við,“ segir Jóhannes.
Að sögn Jóhannesar hafa verið pústrar í vögnunum en ekki það sem hægt er að kalla slagsmál „enn sem komið er“. Þá hefur ekki orðið vart við skemmdarverk ef undan er skilin ein brotin rúða.
„Við höfum séð pústra og séð tilraunir til að egna fólk en yfirleitt hundsa farþegar þetta,“ segir Jóhannes.
Hann óttast þó að eitthvað alvarlegt muni gerast innan tíðar.
„Svo endar þetta með því að eitthvað gerist. Tilfinningin er sú að það sé einungis tímaspursmál hvenær eitthvað alvarlegt gerist,“ segir Jóhannes.