Landsliðseinvaldurinn í hestaíþróttum, Sigurbjörn Bárðarson þykir um margt minna á bandaríska kvikmyndaleikarann Chuck Norris. Sá fyrrnefndi kannast við þetta og hefur áður verið líkt við leikarann sem þekktastur er fyrir leik í hasarmyndum.
Þetta hefur áður verið nefnt við Sigurbjörn og hann var einu sinni umfjöllunarefni í dálknum Þrífarar vikunnar í Morgunblaðinu. Þar var birt mynd af þeim báðum og þóttu með þeim veruleg líkindi. Þessi tvífari Sigurbjörns var ræddur í Dagmálum í vikunni þar sem Sigurbjörn var gestur og ræddi ferilinn, hestamennsku og heimsmeistaramót íslenska hestsins sem framundan er í sumar.
Sigurbjörn er að verða búin að fylla sextíu ár sem knappi keppandi á skeiðvöllum hér á landi og víða erlendis. Hann hefur landað að líkindum öllum titlum sem í boði eru í hestaíþróttum á þeim tíma. Hann segist halda ótrauður áfram á meðan að hann trúi því að hann geti sigrað.
„Þetta er náttúrulega einhver klikkun. Maður er uppfullur af einhverri vitleysis orku. Kappið hefur verið í mér frá því að ég man eftir mér sem barn. Er alltaf í kappi við einhvern. Alltaf að keppa. Labba hraðar en þú, ef ég labba með þér og pissa lengra þegar maður var krakki,“ viðurkennir þessi mikli keppnismaður.
Ertu ekkert farinn að gefa eftir? Er ekki neitt farið að hamla þér?
„Nei. „Götsið“ er ennþá. Þetta að ætla sér það er ennþá. Þetta er langur tími. Þetta eru að verða sextíu ár sem maður er búinn að vera að á vellinum að keppa. Það er náttúrulega langur tími. Og ég er ákveðinn í því að þegar ég finn að ég á ekki séns. En á meðan að ég trúi því að ég geti unnið þá held ég áfram. Maður er svona klikkaður í þessu. En þegar ég finn að það er kominn veggur eða ég sé að ég á ekki séns í barnabarnabörnin eða eitthvað svoleiðis. Þá náttúrulega hætti ég,“ sagði Sigurbjörn.
Rétt er að geta þess að Chuck Norris er töluvert eldri en Sigurbjörn. Leikarinn er fæddur 10. mars 1940 og hefur því töluvert forskot á hinn íslenska tvífara sinn.
Dagmál með Sigurbirni eru opin fyrir áskrifendur Morgunblaðsins. Hægt er að horfa á þáttinn með því að smella á linkinn hér að neðan.