Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lagði fram bókun á borgaráðsfundi í síðustu viku þar sem tekið er undir sjónarmið Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) um að sala áfengis verði heimiluð á íþróttaviðburðum.
Er umsögn flokksins að undirlagi tillögu ÍBR sem lögð var fram á síðasta ári um að heimila áfengissölu á íþróttaviðburðum. Málið var tekið upp hjá menningar- og íþróttaráði á vettvangi borgarmálanna og það svo rætt í borgarráði á fimmtudag.
Í umsögn um framlagningu tillögu um að áfengissala verði heimil segir að á fundi ÍBR með félögum í Reykjavík í október hafi verið ræddir kostir og gallar sölu áfengis í íþróttakappleikjum.
„Niðurstaða fundarins var skýr vilji og raunar ákall félaganna um að sala á áfengi verði heimiluð; að sniðinn verði skýr rammi um með hvaða hætti slík sala ætti að vera,“ segir í umsögn ÍBR um málið. Er bent á að íþróttafélögin líti á áfengissöluna sem mikilvæga tekjulind.
Borið hefur á því á íþróttaviðburðum á liðnum árum að áfengissala hafi verið til staðar. Þannig var t.a.m. bjórsala á landsleik karlaliðs Íslands á Laugardalsvelli þegar liðið mætti Albaníu í júlí í fyrra. Var hún heimiluð á grundvelli undanþágu.
Í bókun Sjálfstæðismanna segir m.a:
„Áfengissala á sér nú þegar stað á slíkum íþróttaviðburðum og getur reynst mikilvæg tekjulind fyrir rekstur íþróttastarfs. Það er eðlilegt að regluverkið endurspegli bæði veruleikann og tíðarandann í samfélaginu. Íþróttahreyfingunni er vel treystandi til að gæta að lýðheilsusjónarmiðum og tryggja að fólk undir lögaldri hafi ekki aðgengi að áfengisveitingum á slíkum viðburðum,“ segir í bókuninni.
Sjö umsagnir hafa borist um tillöguna og eru þær fremur neikvæðar í meirihluta tilfella. Eru þær frá Landlæknisembættinu, bindindissamtölunum IOGT, Mannréttinda- og ofbeldisráði Reykjavíkur, Reykjavíkurráði ungmenna, UMFÍ, velferðarráði Reykjavíkur auk ÍBR.
Óskað var eftir umsögnum átta annarra aðila sem tjáðu sig ekki um málið. Þeirra á meðal voru t.d. Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins.