Yfirgripsmikið mál en rannsókn miðar vel

Fjórir karlar og ein kona sitja í gæsluvarðhaldi í tengslum …
Fjórir karlar og ein kona sitja í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Sigurður Bogi

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að rannsókn lögreglu á manndráps-, frelsissviptingar- og fjárkúgunarmáli, sem upp kom þegar maður fannst þungt haldinn í Gufunesi og lést á sjúkrahúsi þann 10. þessa mánaðar, miði vel.

Fimm sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins, fjórir karlar og ein kona, en tveimur konum var sleppt úr haldi í gær.

Gefur ekki upp þjóðerni

„Það er ómögulegt að segja til um það hvenær rannsókn málsins lýkur. Þetta er yfirgripsmikið mál en við reynum að hraða rannsókninni eins og kostur er. Við njótum aðstoðar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sérsveitar ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara,“ segir Sveinn Kristján við mbl.is.

Spurður hvort þetta séu allt Íslendingar sem sitja í gæsluvarðhaldi segist hann ekki vilja gefa það upp að svo stöddu en mbl.is greindi frá því í síðustu viku að Stefán Blackburn, þekktur ofbeldismaður sem margsinnis hefur komist í kast við lögin vegna ofbeldismála, fjársvika og frelsissviptingar, sé einn þeirra sem eru í varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert