Almannavarnir bregðist við hernaðarástandi

Ráðstefnan var þéttsetin.
Ráðstefnan var þéttsetin. mbl.is/Karítas

Afskaplega ólíklegt er að hernaðarástand geti skapast á Íslandi en almannavarnakerfið á að grípa þjóðina ef til þess kemur.

Þetta kom fram í erindi Runólfs Þórhallssonar, yfirlögregluþjóns almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, á ráðstefnu ríkislögreglustjóra um öryggismál hérlendis í dag.

Þurfum að dýpka umræðuna

Á ráðstefnunni var nokkrum sinnum minnst á skandinavíska hugtakið „totalforsvar“ sem grunnhugmynd almannavarna byggir á.

Það vísar til þess að skyldur eru lagðar á alla þætti samfélagsins, svo sem ríkisstjórn, lögreglu, sveitarfélögin, samtök, fyrirtæki og einstaklinga. Að sögn Runólfs er slagorðið „við erum öll almannavarnir“ aldrei of oft notað, líkt og í heimsfaraldrinum.

Runólfur Þórhallson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra.
Runólfur Þórhallson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Aðsend

Runólfur nefndi að Finnar séu komnir lengst í almannavarnaviðbrögðum sínum vegna landamæra sinna við Rússland.

Hann sagði að hérlendis þyrfti að dýpka umræðu um lagabreytingar og að samstarf og greining gagna væri einna mikilvægast.

Hvað varðar helstu ógn og áskoranir almannavarna sagði Runólfur náttúruvá vera númer 1, 2 og 3. Við yrðum þó einnig að beina sjónum okkar að netárásum, skemmdarverkum, hryðjuverkum og hernaðarógn.

Snýst ekki um birgðasöfnun

Runólfur minntist á að unnið er að gerð bæklings fyrir landsmenn með upp­lýs­ing­um um neyðarbirgðir og annað slíkt til und­ir­bún­ings ef Ísland skyldi verða fyr­ir árás.

Hann sagði það vera lið í að auka áfallaþol þjóðarinnar og vinnan væri í nánu samstarfi við allt almannavarnakerfið.

Runólfur sagði að slíkum bæklingi hefði verið dreift á Norðurlöndunum sem vakti misgóð viðbrögð almennings. Staðan sé hins vegar einfaldlega sú að verið sé að bregðast við breyttri heimsmynd í öryggis- og varnarmálum.

Runólfur benti á að á sjöunda áratugnum hefði verið unnið að álíka bæklingi hérlendis í skugga Kúbudeilunnar. Fallið var hins vegar frá því að birta hann af ótta við að valda of miklum kvíða.

Runólfur sagði stjórnvöld þurfa á að vera skýr í sinni stefnu um að fræða almenning.

Hann sagði mikilvægt að leggja áherslu á samkennd, náungakærleik og að horfa í okkar nærsamfélag. Ekki fókusera um og of á að kaupa birgðir af vatni og niðursuðuvörum, eða svokallað „bunker mentality“.

„Þetta snýst um svo miklu meira en það,“ sagði Runólfur og lauk þar með síðasta erindi ráðstefnunnar.

Síðari hluti dagskrár ráðstefnunnar var lokaður fyrir lögregluna og ákæruvaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert