Aukin fjármögnun forgangsmál

Frá Hátíðarsal Háskóla Íslands í kvöld þar sem úrslitin voru …
Frá Hátíðarsal Háskóla Íslands í kvöld þar sem úrslitin voru kynnt. mbl.is/Árni Sæberg

„Tilfinningin er bara stórkostleg. Ég er enn að meðtaka að þetta hafi gerst,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, nýkjörinn rektor Háskóla Íslands.

Úrslitin voru kunngjörð í Hátíðarsal Háskóla Íslands fyrr í kvöld.

Samtal við stjórnvöld á teikniborðinu

Í samtali við mbl.is segir Silja að kosningabaráttan hafi verið löng en jafnframt ótrúlega skemmtileg.

„Ég er bara rosalega þakklát og hamingjusöm.“

Að öllu óbreyttu verður Silja skipuð í embættið 1. júlí og hún reiknar með að vinna töluvert með Jóni Atla Benediktssyni, fráfarandi rektor, fram að þeim tíma til undirbúnings.

Í kosningabaráttu sinni lagði Silja áherslu á vanfjármögnun opinberra háskóla, sérstaklega Háskóla Íslands. Hún segir forgangsatriði að hefja samtal við stjórnvöld um hvernig megi auka fjármagn til skólanna.

Vill sjá sterkara samfélag

„En ég hef líka lagt áherslu á að við þurfum að horfa meira á samfélagið okkar. Við höfum ekki enn náð okkur eftir covid. Stúdentar eru enn svolítið laustengdir, og starfsfólk mætir kannski ekki jafn mikið til vinnu. Margir vinna heima,“ segir Silja og heldur áfram:

„Mig langar að breyta því þannig að við verðum sterkara samfélag. Ég hef þá trú að háskóli sé fyrst og fremst samfélag – og að þar verði hugmyndirnar og árangurinn til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert