„Ef við tímasetjum ekki samskiptin þá gerist ekki neitt“

Ljósmynd/Colourbox

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stendur nú fyrir verkefninu Tölum saman, vitundarvakningu um félagslega einangrun. Verkefnastjórinn, Líney Úlfarsdóttir, er sálfræðingur sem sérhæfir sig í geðheilbrigði aldraðra. Markmið verkefnisins er að vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig hægt er að vera hluti af lausninni.

„Þetta er vaxandi vandamál um allan heim. Við sjáum það að félagsleg einangrun hefur gríðarleg áhrif á einstaklinginn, getur orðið til þess að hann missi andlega og/eða líkamlega heilsu, og á samfélagið í heild. Ef við missum fólk út af vinnumarkaði og virkni samfélagsins þá er það bæði dýrt fyrir einstaklinginn sjálfan og okkur sem heild,“ segir Líney í samtali við mbl.is.

„Ef við tímasetjum ekki samskiptin þá gerist ekki neitt. Hver kannast ekki við að rekast á vin eða fjölskyldumeðlim og segja: „Vá hvað það er langt síðan við höfum hist, við verðum að fara að hittast“.“

Ef maður tímasetur samskipti þá er líklegra að maður láti af því verða, ef maður segir: „Eigum við að hittast og fara í göngutúr á þriðjudaginn?“, þá gerir maður það.“

Samfélagsgerðin ýti undir þróunina

Líney segir eitthvað vera í samfélagsgerðinni okkar sem ýtir undir þessa þróun.

„Fólk býr frekar eitt, við vinnum meira á bakvið tölvu sem gerir það auðveldara að einangra sig“.

Hún segir færniskerðingu einnig geta aukið áhættuna á félagslegri einangrun. Heyrnarskerðing geti til að mynda verið lúmsk, allt í einu fari að vera erfitt að vera í fjölmenni og „maður fer að verða meðvitaður um sjálfan sig, vill ekki segja „ha?“ í fjórða skiptið“.

Þá segir hún stundum ekki þurfa meira en illa mokaðar tröppur til að ýta undir einangrun fólks.

„Maður sér þetta oft fyrir sér sem eitthvað sem á við um jaðarhópa eða fólk sem er annað hvort utan veltu eða mikið veikt, en við getum öll lent í þessu.“

Samfélag sem ein heild

„Það sem að við fundum með Covid, þegar alheimurinn spáði mikið í þessum málum, var að félagsleg endurhæfing tekur langan tíma. Þrátt fyrir að þríeykið segi „engar takmarkanir“ þá býðurðu ekki bara beint í partý.

Þetta gerist hægt og ef þú hefur verið einangraður í langan tíma getur þröskuldurinn verið rosalega hár. Þá er mikilvægt að það sé einhver sem að tekur á móti þér þegar þú stígur fyrsta skrefið.“

Þegar þú segir „einhver sem tekur á móti“, áttu þá við fagaðila eða aðstandendur?

„Sko mér finnst að það ættu að vera bara við öll. Þess vegna erum við í þessari almennu vitundarvakningu, af því að þó að ég og Svavar Knútur drögum vagninn þá höfum við ekki það aðgengi að finna alla sem þurfa aðstoð.“

Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hún segir þau bæði hafa ferðast um landið og hitt fólk á borgarafundum. Vitundarvakningin er nú farin af stað og vonast þau til þess að samfélagið taki svolítið á þessum vanda saman.

„Auðvitað eru viðbragðsaðilar og starfsfólk sveitarfélaga og félagsmiðstöðva og allt svoleiðis sem er mjög gott, en það er alveg þetta að starfsfólkið í félagsmiðstöðinni veit ekki heldur hvort að nágranni þinn er mögulega félagslega einangraður.

Nú erum við svo mikið í samskiptum í gegnum tölvupóst. Þegar kemur að aðalfundi í húsfélaginu sendiruðu til dæmis yfirleitt tölvupóst, en það er mjög auðvelt að hundsa hann. Ef einhver hins vegar bankar upp á hjá þér og segir „það er að koma að aðalfundi, eru einhver mál sem brenna á þér?“ getur það eitt brotið ísinn.“

Getur komið fyrir alla

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að allir geti lent í því að einangrast félagslega. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfellda ógna við almenna heilsu. Það er mat stofnunarinnar að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.

Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið.

Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt.

Ráðherra vill opna augu fólks

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að markmið vitundavakningarinnar sé að opna augu fólks fyrir félagslegri einangrun í samfélaginu og vekja athygli á samfélagslegri ábyrgð okkar allra. Hún segir það eitt af sínum hjartans málum að vinna gegn þeirri þöglu ógn sem einmanaleiki og félagsleg einangrun eru.

Ráðherra segir heimsfaraldurinn hafa sýnt hve skaðleg félagsleg einangrun geti verið.

„Valin sveitarfélög fengu styrki til að ráða tengiráðgjafa, en þeirra hlutverk er að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa. Þeir nálgast þá sem eru félagslega einangraðir eða í hættu á að einangrast, meðal annars með símtölum og heimsóknum. Tengiráðgjafarnir hafa yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti viðkvæmra hópa.“

Þá segir Inga að samhliða því sé unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum sem ætlað sé að draga úr félagslegri einangrun fólks.

„Nú vil ég hins vegar virkja samfélagið og opna augu fólks fyrir því að hugsanlega sé einhver einangraður og einmana í næsta nágrenni sem við höfum ekki áttað okkur á. Við getum hjálpað með því að láta okkur ekki standa á sama heldur mæta viðkomandi þar sem hann er með vinskap, hlýju og virðingu. Ég hvet okkur öll til að tala saman og halda sambandi.“

Upplifir þú einmanaleika eða félagslega einangrun? Eða hefur á tilfinningunni að einhver í þínu nærumhverfi sé að einangrast félagslega?

Í netspjalli og hjálparsíma Rauða krossins 1717 má fá upplýsingar og ráðgjöf allan sólarhringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert