Fordæma skerðingar ríkisstjórnarinnar

Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris.
Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris. Ljósmynd/Aðsend

Hjálparsamtökin Solaris segjast fordæma ólýðræðisleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og hafa kallað eftir samtali við stjórnvöld um málefni fólks á flótta.

Þetta segir í tilkynningu frá samtökunum.

Greint var frá því í síðustu viku að samningur Vinnumálastofnunar við Rauða krossinn um félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd yrði ekki endurnýjaður.

Sama myndi gilda um samning ráðuneytis félagsmála um ráðgjafarþjónustu við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga.

Ýti undir vanlíðan og niðurbrot

„Markmiðið með samningnum var að tryggja vandaðan félagslegan stuðning fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á meðan þeir bíða úrlausnar mála sinna. Með félagslegum stuðningi er meðal annars átt við félagsstarf, virkniúrræði og sálfélagslegan stuðning en tilgangurinn með honum er að reyna að draga úr jaðarsetningu og auka virkni, bæta andlega heilsu og vinna að inngildingu fólks með flóttabakgrunn í íslenskt samfélag. Ljóst er að skerðing á slíku starfi stóreykur félagslega einangrun og ýtir undir vanlíðan og niðurbrot.

Þá hefur ríkisstjórnin einnig ákveðið að endurnýja ekki samning sinn við Rauða krossinn um ráðgjafarþjónustu við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga. Rauði krossinn hefur sinnt slíkri þjónustu um árabil og í fyrra veitti Rauði krossinn um 250 viðtöl vegna fjölskyldusameininga. Óljóst er hver mun aðstoða fólk sem hefur fengið stöðu sína sem flóttafólk viðurkennda við það að sameinast fjölskyldum sínum þegar samningurinn rennur út í byrjun júní nk.,“ segir í tilkynningunni.

Geri virka þátttöku í samfélaginu ólíklegri

Segir þar enn fremur að það valdi miklum áhyggjum að ríkisstjórnin hafi einnig sagt sig frá samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem aðstoði fólk við að sameinast fjölskyldum sínum.

Án slíkrar aðstoðar skerðist möguleikar á fjölskyldusameiningum, til dæmis fyrir fólk frá Palestínu, og er tekið fram að um mannréttindi sé að ræða.

„Ljóst er að skerðing á möguleikum fjölskyldusameininga eykur hættuna á einangrun, ýtir undir vanlíðan og erfiðar tilfinningar og gerir virka þátttöku og inngildingu einstaklinga sem þegar hafa fengið dvalarleyfi í íslensku samfélagi ólíklegri.“

„Afleiðingarnar af því ættu að vera öllum ljósar

Þá er einnig nefnt að í september 2023 hafi verið komið á fót neyðarskýli fyrir fólk á flótta sem hafi verið svipt grundvallarþjónustu og væri á götunni án hvers konar stuðnings.

Sú staða hefði verið hluti af arfleið fyrri ríkisstjórnar sem margir höfðu bundið vonir við að ný ríkisstjórn myndi snúa til baka.

„Í stað þess hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur nú ákveðið að loka neyðarskýlinu, sem rekið er af Rauða krossinum, og hýsir fjölda fólks hverja nótt. Ekki fást svör við því hvað mun taka við og því má ætla að fólk muni enda á götunni á nýjan leik. Afleiðingarnar af því ættu að vera öllum ljósar.“

Óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra

Segir í tilkynningunni að það séu forkastanleg vinnubrögð hjá ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, undir forystu Ingu Sæland, að ganga með svona alvarlegum hætti að grundvallarréttindum fólks á flótta án nokkurs samtals við það fólk sem aðfarirnar bitni á, hagaðila sem aðstoði fólk í umræddri stöðu, á Alþingi eða samfélaginu.

„Stjórn Solaris fordæmir þessi ólýðræðislegu vinnubrögð og hvetur stjórnvöld til þess að hverfa frá þessum áformum og koma til samtals við fólk á flótta og stuðningsfólk þess um mannúðlega stefnu í málefnum fólks sem leitar hingað eftir skjóli og vernd.

Stjórn Solaris kallar eftir samtali við stjórnvöld um málefni fólks á flótta og hefur þegar óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra fyrir rúmum tveimur vikum en þeirri beiðni hefur ekki enn verið ansað, þrátt fyrir ítrekun. Það er vonandi ekki eitthvað sem jaðarsettir hópar og málsvarar þeirra eiga að venjast hjá ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert