Móttökudeild í Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd hjálpar börnum að aðlagast íslensku skólakerfi og hefur gefið góða raun. Það er „ekki spurning“ að þessi leið gæti verið fyrirmynd fyrir aðra skóla á landinu.
Þetta segir Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri Háaleitisskóla, í samtali við mbl.is.
Í Háaleitisskóla eru töluð um 40 tungumál og tæplega 70% nemenda eru af erlendu bergi brotin. Eins og fjallað hefur verið um áður þá hefur mikill fjöldi hælisleitenda verið búsettur á Ásbrú og því mörg börn í leit að alþjóðlegri vernd sótt Háaleitisskóla.
Í október 2023 var opnuð deild við Háaleitisskóla sem nefnist Friðheimar. Þar er lögð áhersla á íslensku, stærðfræði, lífsleikni og upplýsingatækni.
„Þegar þau koma þá byrjum við á því að sjá hversu vel þau eru skólagengin, hvort þau hafi einhvern tímann verið í skóla eða einhvern hluta af ævi sinni. Í rauninni er þetta mjög einstaklingsbundið. Við tölum um að Friðheimaúrræðið sé í þrjá til sex mánuði. Sumir nemendur eru tilbúnir eftir þrjá mánuði í svona aðlögun hérna og fara þá yfir í Háaleitisskóla,“ segir Unnar en tekur fram að þetta sé mismunandi eftir nemendum.
Sumir nemendur hafi til dæmis verið í ár hjá Friðheimum, sem sé líka í lagi.
Aðlögunin virkar þannig að nemendur byrja í Friðheimum en stunda leikfimi og list- og verkgreinar í Háaleitisskóla með sínum jafnöldrum.
„Svo hægt og rólega, ef þau eru tilbúin í meira, þá fara þau að koma í ÍSAT, íslensku sem annað tungumál, þannig að ÍSAT-grunnurinn er kenndur í Friðheimum og svo geta þau komið á fyrsta, annað eða þriðja þrep yfir í Háaleitisskóla,“ segir Unnar.
Þegar Friðheimar byrjuðu voru nemendur um 100 en núna eru þeir um 30. Eflaust spilar þar inn í að hælisumsóknum hefur fækkað á síðastliðnu ári. Fyrst og fremst eru arabísku- og spænskumælandi nemendur í Friðheimum.
„Við höldum vel utan um foreldra. Við erum til dæmis með kennara og hún er frábær í að búa til foreldraplan. Það er ekki bara nemandinn sem er undir heldur heimilið. Við erum dugleg að hafa upplýsingafundi fyrir foreldra, sérstaklega fyrir þá sem eru í Friðheimum.“
Hann nefnir að farin sé svokallaða sænska leiðin fyrir nemendur í stærðfræði sem eru enn að læra íslensku. Virkar það þannig að dæmin eru á móðurmáli nemandans en svo hægt og bítandi eru sett inn dæmi á íslensku.
Ýmsar áskoranir hafa fylgt því að vera með svona fjölbreyttan hóp nemenda og ekki síst að vera með nemendur sem koma frá stríðshrjáðum löndum eða eru með aðra menningu.
„Ég byrjaði hérna í ágúst þannig maður veit ekki hvernig þetta var hérna áður. Maður er bara búinn að heyra sögur af því hvernig þetta var áður fyrr þegar nemendur komu og fóru beint inn í bekki,“ segir Unnar og bætir við:
„Kennarar átta sig á því að nemendur koma tilbúnari í skólann þegar þeir eru búnir að vera í þessu úrræði. Það er engin spurning og maður finnur það líka á léttleikanum hérna meðan maður heyrði hvernig þyngslin voru hérna í fyrra. Þú sem umsjónarkennari áttir kannski að taka við tveimur, þremur, fjórum nemendum sem höfðu annað móðurmál en íslensku og töluðu jafnvel ekki ensku. Það segir sig sjálft að þá verður mikil áskorun í kennslustofunni.“
Aðspurður segir hann alveg ljóst að börnunum sjálfum líði betur og að það auki sjálfstraust þeirra að fá að aðlagast kerfinu áður en þau eru sett í bekkjakerfi í skóla sem þau kannast ekki við.
„Lykilatriði í þessu er vellíðan nemandans. Að við séum að mæta nemandanum þar sem hann er staddur hverju sinni,“ segir Unnar.
Hann kveðst ekki kannast við dæmi um það að móttökudeildir séu annars staðar á landinu. Hann er þeirrar skoðunar að það ættu ekki að vera sérstakir móttökuskólar heldur frekar móttökudeildir sem eru hluti af skóla, þannig verður aðlögun nemandans sterkari.
Nemandinn tilheyrir ákveðnum skóla sem hann geti byrjað að tengjast í gegnum ákveðin fög, kynnast jafnöldrum og tengjast því íslenskri skólamenningu fyrr og betur. Í því sé fólgið ákveðið öryggi.
Er þetta eitthvað sem ætti að líta til á fleiri stöðum á landinu þar sem er kannski hátt hlutfall barna sem eru hælisleitendur. Væri hægt að líta á þetta sem fyrirmynd annars staðar?
„Ef þú spyrð mig þá finnst mér það ekki spurning. Við erum búin að keyra þetta núna í rúmlega ár, október 2023 byrjuðum við, og höfum góða reynslu af þessu. Nemendurnir sem koma yfir, maður sér að þeim líður vel,“ segir hann.
„Ég held að þetta sé algjör fyrirmynd um það hvernig þetta eigi að vera. Það má samt ekki misskilja mig, þetta er engin töfralausn en ég veit að við erum að gera þetta vel. Við erum með frábært starfsfólk, bæði í Friðheimum og Háaleitisskóla sem eru með hug og hjarta í þessu. Það skiptir alveg ótrúlega miklu máli og er lykillinn að þessari velgengni.“
Hann segir að gott samstarf við foreldra sé lykilatriði. Starfsfólkið í Friðheimum hafi verið með námskeið fyrir foreldra um það hvað tengist íslenskri menningu, skólakerfi og uppeldi sem hafa verið mjög vel sótt af foreldrum og heppnast einstaklega vel.
Fjölskyldurnar koma oft frá mismunandi menningarheimum þar sem mismunandi gildi eru við lýði og mikilvægt að bera virðingu fyrir því. Unnar segir mikilvægt að vera óhræddur við að stíga inn í þegar upp koma mál og taka umræðuna, við nemendur og foreldra.
Til að mynda hafi komið mál þar sem foreldri var ósátt við það að kona væri að kenna. Þá hafi verið rætt við viðkomandi og útskýrt að í okkar menningarheimi þá væri það eðlilegt.