Borgarráð samþykkti í dag samkomulag við Reiti fasteignafélag, fyrir hönd Reita - þróunar og Reita atvinnuhúsnæðis, um fyrsta áfanga uppbyggingar á Kringlusvæðinu. Gert er ráð fyrir að byggðar verði um 418 íbúðir og að um 20% þeirra verði leiguíbúðir, þar með talið stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir aldraða og/eða búseturéttaríbúðir.
Þetta segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Fá félagsbústaðir kauprétt á allt að 5% hluta lóðanna. Þá munu Reitir skuldbinda sig til að vinna ásamt öðrum að áætlun um leikskólaþjónustu á svæðinu. Einnig munu lóðarhafar verja 11,5 milljónum króna til listsköpunar á svæðinu og mun Reykjavíkurborg leggja til sömu upphæð.
Gert er ráð fyrir að byggðir verði um 56 þúsund fermetrar af íbúðarfermetrum auk rúmlega 11 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði.
Miðað er á að Reitir greiði rúmlega einn milljarð króna fyrir byggingarréttinn og mun sömuleiðis greiða gatnagerðargjald og önnur lögbundin gjöld er tengjast uppbyggingunni.
Þá er nýtt deiliskipulag í vinnslu fyrir lóðirnar og getur staðsetning lóða, nýting, byggingarmagn og fleira breyst við afgreiðslu þess og segir í tilkynningunni að framkvæmdum á hverri lóð eigi að vera lokið innan 36 mánaða frá útgáfu byggingarleyfis.
Segir í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir almenningsrýmum auk göngu- og hjólabrúar yfir Kringlugötu til að tengja landið við nærliggjandi svæði.
Þá mun Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri halda opinn kynningarfund um húsnæðismál á morgun í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Kringlureitur verður á meðal umfjöllunarefna.
Fundurinn verður í beinu streymi á vef Reykjavíkurborgar.