„Ísland er ekki herlaust land“

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður. mbl.is/Karítas

„Ísland er ekki herlaust land,“ sagði Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður, og varaði við orðræðu um að Ísland væri herlaus þjóð í pallborðsumræðum á ráðstefnu ríkislögreglustjóra um öryggismál. 

Víðir Reynisson þingmaður leiddi umræðu um stöðumat sem Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn kynnti á ráðstefnunni. Auk Björns voru Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá embætti ríkislögreglustjóra, í pallborðinu.

Pia hóf mál sitt á því að segja að Ísland væri að slíta barnskónum í öryggis- og varnarmálum. Tími væri kominn á að við tækjum þessum málum alvarlega og lagði hún áherslu á meiri þörf á aukinni greiningargetu og rannsóknum. Hún sagði Íslendinga reiða sig alfarið á alþjóðasamstarf.

Þessu samsinnti Björn og sagði að hérlendis væri nánast stöðug viðvera herja frá öðrum ríkjum og að á Keflavíkurflugvelli höfum við öflugar varnir.

Hann sagði landið hafa tekið ákvörðun um að stofna ekki íslenskan her, þó að við hefðum burði til þess. Um væri að ræða takmarkanir sem við hefðum sjálf ákveðið.

Björn sagði borgaralegar stofnanir fylla tómarúmið og íslensk stjórnvöld þannig tryggja öryggi. Þá geri almannavarnalög ráð fyrir að hægt sé að virkja alla þjóðina þegar hætta steðji að.

Hann sagði borgaralega þáttinn orðinn mun viðameiri en áður vegna gjörbreytts umhverfis.

Víðir Reynisson, Pia Hansson, Björn Bjarnason og Rannveig Þórisdóttir.
Víðir Reynisson, Pia Hansson, Björn Bjarnason og Rannveig Þórisdóttir. mbl.is/Karítas

Mikilvægi trausts

Rannveig benti á að við þyrftum að líta til þess að ytri áhrif hafi áhrif á hið innra, það er að segja almenning og þá sérstaklega ungt fólk. Hún sagði að hluti þess að styrkja áfallaþol þjóðarinnar sé að styrkja unga fólkið.

Nefndi hún sér til dæmis hversu mikilvægt traust til stjórnvalda í heimsfaraldrinum var og hversu miklu þyngri róðurinn hefði verið ef sprottið hefðu upp stór mótmæli eða álíka.

Þá nefndi Rannveig einnig traust til lögreglu. Hún sagði að um 70% samfélagsins segðust treysta lögreglu, en að marktækt drægi úr trausti á meðal yngra fólks. Þá aukist traust þeirra ekki með aldrinum. 

Almennt virtist gæta sammælis um hlutverk lögreglu og stjórnvalda en ef traust er ekki til staðar og átök verða getur staðan breyst mjög hratt í upplýsingaóreiðu. Stórar breytingar gætu þannig breytt stöðunni mjög hratt. 

Því væri mikilvægt að fjárfesta í innra öryggi.

Heimildir lögreglu

Talið barst að heimildum lögreglu og sagði Pia mikilvægt að við þyrftum á aðgengi að sem mestum upplýsingum að halda.

Rannveig tók undir það og sagði erfitt að púsla púsl ef þú ert bara með helming púslanna. Þá nefndi hún að lögreglan væri að kljást við það að eiga ekki fjármagn til að kaupa nauðsynlegan búnað.

Björn sagði tiltölulega auðvelt fyrir okkur að koma á álíka löggjöf og er á Norðurlöndum varðandi heimildir lögreglu. 

Vandamálið væri hins vegar samfélagslegt og erfitt að framkvæma þar sem margir héldu að auknar heimildir væru til þess að stunda njósnir um íslenska borgara og vega að þeirra persónulega frelsi.

Landhernaður ólíklegur

Spurð út í hættuna á stríðsátökum hérlendis sammæltust mælendur á ráðstefnunni að afar ólíklegt væri að Rússar myndu ráðast í landhernað.

Björn sagði að ef Rússar telji að þeir fari illa út úr stríðinu verði Norðurslóðir að búa sig undir hefndir. Þeir hafi hins vegar ekki burði til landhernaðar heldur geri frekar árásir úr fjarlægð og beiti aðferðum til að grafa undan íslensku samfélagi.

Viðmælendurnir sammæltust einnig um að fræða frekar en hræða almenning. Öryggistilfinning þjóðarinnar væri góð og vinna ætti með hana. Ótti geti leitt til þess að fólk taki ekki skynsamlegar ákvarðanir.

Viðmælendurnir sammæltust um að fræða frekar en hræða almenning
Viðmælendurnir sammæltust um að fræða frekar en hræða almenning mbl.is/Karítas

Upplýsingar varðveita traustið

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort viðmælendur teldu okkur varðveita „gullið okkar“ nægilega vel og átti þar við traustið.

Björn sagði mikilvægt að vera ekki í neinum feluleik um stöðuna og skilgreina þyrfti rækilega hlutverk lykilstofnanna.

Rannveig tók undir það og sagði það mikilvægara hvernig hlutirnir væru sagðir heldur en hvað væri sagt. Hún sagði traust almennings byggja á því að vita hver viðbrögðin eiga að vera. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert