Fyrstu frumniðurstöður benda til að vatn sé ekki óhæft til neyslu í Hveragerði en lykt af vatninu er staðfest af heilbrigðiseftirlitinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjóra á vef bæjarins.
mbl.is greindi frá því fyrr í vikunni að Hveragerðisbæ hafi borist ábendingar frá íbúum um breytingar á kalda vatninu á ákveðnum heimilum.
Í umræðu á Facebook-hóp Hvergerðinga er talað um furðulega og skrítna lykt og skrítið bragð af vatninu. Einhverjir töluðu um að ástand vatnsins hafi verið óeðlilegt um einnar viku skeið.
Í tilkynningu bæjarstjóra segir að unnið sé eftir viðbragðsáætlun bæjarins hvað vatnsveitu varðar.
Heilbrigðiseftirlitið hafi tekið fjölmörg sýni á svæðinu og miðað við fyrstu upplýsingar mælist hvorki coli né E. coli í neysluvatninu.
Tekið er fram að á þessu stigi hafi eftirlitið ekkert í hendi um að vatnið sé óneysluhæft út frá gerlafræðilegum viðmiðum. Beðið sé eftir niðurstöðum og fyrstu vísbendingum úr öðrum sýnum. Þær niðurstöður verði birtar á vef bæjarins.
Lækkað ph-gildi mælist í vatninu en þó innan marka, sem gefur samt sem áður ríkt tilefni til að rannsaka málið þar til orsökin er ljós. Það er í algjörum forgangi, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Unnið er öllum höndum að málinu með starfsfólki bæjarins og fjölmörgum fagaðilum til að greina betur orsökina og málið upplýst eftir því sem framvindan skýrist.
Við munum greina frá niðurstöðum um leið og þær berast hér á vefnum,“ segir í tilkynningunni og undir hana ritar Pétur G. Markan bæjarstjóri.