Magnús Karl Magnússon prófessor naut meiri stuðnings í rektorskjöri Háskóla Íslands meðal stúdenta heldur en Silja Bára R. Ómarsdóttir og fékk heilt yfir fleiri atkvæði.
Aftur á móti fékk Silja fleiri atkvæði meðal kennara og atkvæði þeirra voru með talsvert meira vægi heldur en atkvæði stúdenta.
Þetta kemur fram á heimasíðu Háskóla Íslands.
Eins og greint var frá fyrr í kvöld þá var Silja Bára kjörin rektor með 50,7% greiddra atkvæða eftir vigtun.
Atkvæði greiddu alls 1.543 starfsmenn eða 88,1% á kjörskrá og 5.336 stúdentar eða 41,7% á kjörskrá. Þá voru samtals 110 atkvæði greidd af starfsmönnum sem fengu hálft atkvæði, en það eru starfsmenn í hlutastarfi.
Atkvæði starfsfólks vógu 70% í kjörinu og atkvæði nemenda 30%.
Magnús Karl fékk 2.837 atkvæði meðal stúdenta og Silja Bára fékk 2.369 atkvæði.
Aftur á móti fékk Silja Bára 714 atkvæði meðal starfsmanna með heilt atkvæði en Magnús Karl 590 atkvæði meðal starfsmanna með heilt atkvæði.
Magnús Karl fékk 58 atkvæði meðal starfsmanna með hálft atkvæði en Silja Bára fékk 50,5 atkvæði meðal starfsmanna með hálft atkvæði.
Eftir vigtun í takti við vægi atkvæða fékk Silja Bára því rúmlega 37% af heildarfjölda atkvæða kennara og rúmlega 13% atkvæða frá stúdentum, eða samanlagt 50,7% atkvæða.
Magnús Karl fékk 47,6% atkvæða.