Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, vonast eftir jákvæðum fréttum í dag varðandi frekari fjármögnun á skólanum. Skólinn er í gjaldþrotameðferð og hefur til þessa ekki hlotið náð sem skóli á háskólastigi. Því hefur ekki fylgt honum fjármagn eins og stjórnendur skólans hafa væntingar til.
Það gæti verið að breytast ef miðað er við orð Hlínar.
„Við höfum fengið nokkuð stöðugar fréttir af því að það sé framvinda hjá ráðuneytunum í þeirra viðræðum um málefni skólans. Í gær fékk ég þær fréttir að eitthvað yrði gefið út um þetta í dag eða á morgun. Meira get ég ekki sagt um málið að sinni en ég er mjög bjartsýn,“ segir Hlín.
Hún segir að hún hafi rætt við starfsfólk og tjáð því að von gæti verið á jákvæðum fréttum í málinu.
Að sögn Hlínar hefur hún ekki verið í beinum samskiptum við ráðherra en hún hafi verið í sambandi við tengilið úr ráðuneyti. Hún gefur ekki upp hvaða ráðuneyti það er.
„Við erum ekkert að hnika frá þeim væntingum okkar að fá viðurkenningu um að vera með nám á háskólastigi. Ég trúi því að svo muni verða, en ég þarf að heyra eitthvað frá ráðuneytinu fyrst, en ég er vongóð um að við komumst á háskólastig,“ segir Hlín.