Nemendum á miðstigi hótað: Hringt á lögreglu

Seljaskóli í Breiðholti í Reykjavík.
Seljaskóli í Breiðholti í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Skólastjóri Seljaskóla, Jóhanna Héðinsdóttir, sendi póst til foreldra nemenda í skólanum til að upplýsa þá um að þrjú ungmenni úr öðrum skóla hefðu komið í Seljaskóla og haft í hótunum við nemendur.

Töldu nemendur sig sjá glitta í hníf hjá minnst einum þeirra sem lét ófriðlega.

Segir í pósti Jóhönnu að ungmennin hefðu strax verið beðin um að yfirgefa skólasvæðið. Hins vegar voru þau enn á stjái þegar kom að hádegisfrímínútum. Hófu þau að hóta nemendum á miðstigi ofbeldi. Á miðstigi eru 10–12 ára nemendur í 5. - 7. bekk.

Enginn hnífaburður staðfestur

„Einhverjir nemendur uppástóðu að eitt ungmennið hafi verið með hníf. En enginn gat almennilega staðfest það og síðar í samtölum var það raunar svo að nemendur voru bara vissir um að slíkt væri, eða héldu að þeir hefðu séð móta fyrir hníf í buxnastreng,“ segir í pósti Jóhönnu.

Segir Jóhanna að hringt hafi verið á lögreglu en að ungmennin hafi verið á brott þegar lögreglu bar að garði. Þá segist hún hafa haft samband við skólastjóra þess skóla sem nemendurnir eru sagðir sækja.

Töluvert uppnám hjá nemendum 

„Það varð töluvert uppnám hjá nemendum við þetta atvik, sem við skiljum.
Einhverjir nemendur urðu alls ekki varir við neitt. Engu að síður tel ég mikilvægt að upplýsa ykkur öll,“ segir að lokum í pósti Jóhönnu til foreldra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert