Stjórnarmönnum skipt út á einu bretti

Fyrrverandi ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, sonur Ingu Sæland og fyrrverandi varaþingmaður …
Fyrrverandi ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, sonur Ingu Sæland og fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna víkja öll úr stjórnum ríkisfyrirtækja. Samsett mynd

Stjórnarskipti urðu í tveimur ríkisfyrirtækjum í vikunni þar sem stjórnarmönnum var nánast skipt út á einu bretti.

Ný fimm manna stjórn Íslandspósts var skipuð á aðalfundi fyrirtækisins í byrjun vikunnar og í gær tók nýtt fólk við stjórnartaumum Isavia, að því er Viðskiptablaðið greinir frá.

Breytingarnar tengjast að líklega nýju verklagi um val á fólki til stjórnarsetu í ríkisfyrirtækjum, sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra setti í síðasta mánuði. Það á að koma í veg fyrir stjórnmálatengsl innan stjórna ríkisfyrirtækja.

Tvær val­nefnd­ir voru skipaðar til að meta hæfni og óhæfi þeirra ein­stak­linga sem gáfu kost á sér til stjórn­ar­setu í stærri rík­is­fyr­ir­tækj­um.

Sonur Ingu Sæland úr stjórn Póstsins

Viðskiptablaðið greinir frá því að í stjórn Íslandspósts hafi verið kjörin Pétur Már Halldórsson (formaður), Hrefna Kristín Jónsdóttir, Einar S. Magnússon, Rakel Heiðmarsdóttir og Sara Sigurðardóttir.

Sara var varamaður í stjórn undanfarið starfsár en að henni undanskilinni eru bara ný andlit í stjórninni.

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Vinstri Grænna, lætur því af störfum sem stjórnarformaður Íslandspósts. Auk þess víkur Baldvin Örn Ólason, sonur Ingu Sæland félagsmálaráðherra, úr stjórn Póstsins.

Kristján Þór úr stjórn Isavia

Í dag tók svo Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, við stjórnarformennsku Isavia en aðalfundur ríkisfyrirtækisins var haldin í gær, miðvikudag. Hann tekur þar við af Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrrverandi ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum.

Í raun var allri stjórn Isavia skipt út á fundinum í dag nema Mörtu Jónsdóttur, en hún tók þar sæti í ársbyrjun. Auk hennar og Steinþórs eru Gréta María Grétarsdóttir, Hera Grímsdóttir, og Ómar Svavarsson í stjórn.

Steinþór Pálsson þegar hann var bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson þegar hann var bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert