Stjórnarskipti urðu í tveimur ríkisfyrirtækjum í vikunni þar sem stjórnarmönnum var nánast skipt út á einu bretti.
Ný fimm manna stjórn Íslandspósts var skipuð á aðalfundi fyrirtækisins í byrjun vikunnar og í gær tók nýtt fólk við stjórnartaumum Isavia, að því er Viðskiptablaðið greinir frá.
Breytingarnar tengjast að líklega nýju verklagi um val á fólki til stjórnarsetu í ríkisfyrirtækjum, sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra setti í síðasta mánuði. Það á að koma í veg fyrir stjórnmálatengsl innan stjórna ríkisfyrirtækja.
Tvær valnefndir voru skipaðar til að meta hæfni og óhæfi þeirra einstaklinga sem gáfu kost á sér til stjórnarsetu í stærri ríkisfyrirtækjum.
Viðskiptablaðið greinir frá því að í stjórn Íslandspósts hafi verið kjörin Pétur Már Halldórsson (formaður), Hrefna Kristín Jónsdóttir, Einar S. Magnússon, Rakel Heiðmarsdóttir og Sara Sigurðardóttir.
Sara var varamaður í stjórn undanfarið starfsár en að henni undanskilinni eru bara ný andlit í stjórninni.
Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Vinstri Grænna, lætur því af störfum sem stjórnarformaður Íslandspósts. Auk þess víkur Baldvin Örn Ólason, sonur Ingu Sæland félagsmálaráðherra, úr stjórn Póstsins.
Í dag tók svo Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, við stjórnarformennsku Isavia en aðalfundur ríkisfyrirtækisins var haldin í gær, miðvikudag. Hann tekur þar við af Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrrverandi ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum.
Í raun var allri stjórn Isavia skipt út á fundinum í dag nema Mörtu Jónsdóttur, en hún tók þar sæti í ársbyrjun. Auk hennar og Steinþórs eru Gréta María Grétarsdóttir, Hera Grímsdóttir, og Ómar Svavarsson í stjórn.