Þó að staða grunnskólabarna í 6. til 10. bekk sé almennt góð er greinanlegur munur á líðan, tengslum og öryggi barna eftir því hvernig þau meta fjárhagslega stöðu fjölskyldu sinnar, samkvæmt nýju tölublaði Talnabrunns, fréttabréfs landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis.
Í nýjum Talnabrunni embættis landlæknis er fjallað um líðan, öryggi og félagstengsl barna á Íslandi og samband þessara þátta við hvernig þau meta fjárhagslega stöðu fjölskyldu sinnar.
Greinarhöfundar eru Sigrún Daníelsdóttir og Andrea G. Dofradóttir. Þær nýttu gögn frá Íslensku æskulýðsrannsókninni til að fá yfirlit yfir þessa þætti í því skyni að skoða hvort og þá hvar greina megi ójöfnuð í heilsu og vellíðan barna. Niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi sem embætti landlæknis hélt í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Endurmenntun Háskóla Íslands í tilefni af Alþjóðlega hamingjudeginum þann 20. mars.
Fram kemur að staða grunnskólabarna í 6.-10. bekk árið 2024 er almennt góð á flestum sviðum. Flest börn meta lífsánægju sína mikla, líður vel í skólanum og eiga góð tengsl við fjölskyldu sína, kennara og bekkjarfélaga. Aftur á móti má greina mikinn mun á líðan, tengslum og öryggi barna eftir því hvernig þau meta fjárhagslega stöðu fjölskyldu sinnar.
Börn sem meta fjárhagsstöðu fjölskyldu sinnar slæma eru mun verr stödd en börn sem meta fjárhagsstöðuna góða á öllum mælingum sem skoðaðar voru. Þau eru líklegri til að upplifa depurð og kvíða nær daglega, greina frá lítilli lífsánægju, líka illa í skólanum, upplifa sig einmana og utangarðs í skólanum, hafa lent í slagsmálum, orðið fyrir eða beitt einelti og orðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldris eða annars fullorðins á heimili sínu.
Þau greina mun síður frá því að fá þann tilfinningalega stuðning og hjálp sem þau þurfa frá fjölskyldu sinni, upplifa bekkjarfélaga sína síður vingjarnlega, treysta kennurum sínum síður og telja þeim síður vera annt um sig sem einstaklinga.
Ójöfnuður meðal barna hefur bæði alvarleg áhrif á þá einstaklinga sem eiga í hlut og á þróun samfélagsins til framtíðar. Í skýrslu embættis landlæknis frá árinu 2021 kemur fram að einstaklingar sem áttu styttri skólagöngu að baki eða erfiðara með að ná endum saman bjuggu almennt við verri heilsu og lifnaðarhætti en þeir sem áttu að baki lengri skólagöngu eða bjuggu við betri efnahag. Í skýrslunni er mikilvægi þess að líta á ójöfnuð í heilsu og vellíðan í tengslum við lífsskilyrði í samfélaginu undirstrikað.
Í Talnabrunni embættis landlæknis um líðan fullorðinna árið 2023 kom jafnframt fram að þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman fari fjölgandi. Það er mikið áhyggjuefni þar sem streita, líðan og staða foreldra hefur áhrif á börn.
Rík ástæða er til þess að fylgjast betur með líðan og högum barna eftir félags- og efnahagsstöðu og gera betri ráðstafanir til að mæta þeim sem standa höllum fæti, þar á meðal í skólakerfinu. Nauðsynlegt er að hlúa að barnafjölskyldum og hafa í huga að velferð foreldra hefur áhrif á farsæld barna. Mikilvægt er að stuðla að góðum uppeldisskilyrðum fyrir öll börn með markvissum aðgerðum.
Gögnin sem rýnd eru í Talnabrunni benda til þess að tækifæri barna til að eiga heilbrigt og gott líf séu ójöfn allt frá barnæsku. Ef ekkert er gert mun sá aðstöðumunur að líkindum fara vaxandi yfir æviskeiðið og þar með auka enn á heilsufarslegan ójöfnuð. Jöfn tækifæri og góð uppeldisskilyrði barna eru lykillinn að farsælu samfélagi til lengri tíma og því mikilvægt að standa vörð um vellíðan, heilsu og farsæld allra barna og ungmenna – og skilja engin eftir.