#71. - Sykurpabbi kemur út úr skápnum og ráðherrar sakaðir um lygar

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra halda fram ósannindum í framsetningu sinni á framlögðum tillögum um hækkun veiðigjalda.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur á vettvangi Spursmála.

Nýjasti þáttur Spursmála var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptöku af honum má nálgast í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube.

Milljarðar á milljarða ofan

Segir hún með ólíkindum að ráðherrarnir haldi því fram að útgerðin muni halda eftir óskertum hlut af hagnaði sínum eftir breytingarnar. Við blasi að það geti ekki verið þegar gjöld eru hækkuð um milljarða á milljarða ofan.

Færi kerfið í átt að þrotakerfi í Noregi

Í viðtalinu fer Heiðrún Lind einnig yfir það hvaða áhrif þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar geta haft á fiskvinnslu vítt og breitt um landið. Segir hún að verið sé að færa kerfið í átt að því sem gert hefur verið í Noregi. Þar er fiskvinnslan ríkisstyrkt, hún víða rekin með tapi og gjaldþrot eru algeng. Þá er stór hluti aflans sem að landi berst sendur rakleitt til ríkja á borð við Pólland og Kína þar sem hann er fullunninn.

Ásamt Heiðrúnu var fjölda stjórnarþingmanna og ráðherra boðið til þátttöku í umræðunni um væntanlegar breytingar á auðlindagjöldum í sjávarútvegi. Enginn þeirra átti hins vegar tök á því að mæta til leiks.

Sykurpabbi og verðlaunaleikstjóri

Auk Heiðrúnar Lindar mæta í þáttinn þau Patrik Atlason tónlistarmaður og Tinna Gunnlaugsdóttir, leikari, leikstjóri og fyrrum þjóðleikhússtjóri. Þau ræða fréttir vikunnar, Eddu-verðlaunin þar sem Tinna hlaut heiðursverðlaun ásamt eiginmanni sínum, Agli Ólafssyni. Þá gaf Patrik út nýtt lag í morgun sem ber hina virðulegu yfirskrift, Sykurpabbi.

Farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar

Í lok þáttarins mætir á svæðið Jón Gunnar Jónsson, fyrrum forstjóri Bankasýslu ríkisins. Í liðinni viku voru þrjú ár frá því að íslenska ríkið losaði um ríflega 50 milljarða hlut í Íslandsbanka í útboði sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Svo stóran raunar að Bjarni Benediktsson sagði af  sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra.

Kaup Landsbankans á TM umdeild

Jón Gunnar vill meina að þarna hafi farið fram farsælasta útboð Íslandssögunnar. En í þættinum er sagan að baki því rakin, einnig rætt um núverandi fyrirætlanir stjórnvalda um að ljúka sölu á eftirstæðum hlut sínum í Íslandsbanka. Þá er Jón Gunnar einnig spurður út í atburðarásina sem leiddi til þess að Landsbankinn keypti tryggingafélagið TM í heilu lagi, í trássi við vilja langstærsta eiganda bankans, ríkissjóðs Íslands.

Fylgist með spennandi þætti á mbl.is klukkan 14 í dag. 

Patrik Atlason, Heiðrú Lind Marteinsdóttir, Jón Gunnar Jónsson og Tinna …
Patrik Atlason, Heiðrú Lind Marteinsdóttir, Jón Gunnar Jónsson og Tinna Gunnlaugsdóttir eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum. Samsett mynd/mbl.is/María Matthíasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert