Móttökudeild Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd hefur stutt við aðlögun barnanna að íslensku skólakerfi og gefið góða raun.
Spurð hvort fyrirkomulagið sé fyrirmynd fyrir skólastarf Reykjavíkurborgar segja fulltrúar skóla- og frístundaráðs fyrirkomulagið brjóta í bága við stefnu borgarinnar um skóla án aðgreiningar.
Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði, segir stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í menntamálum innihalda svipað fyrirkomulag og um ræðir en menntayfirvöld leggi meiri áherslu á skóla án aðgreiningar.
Þá segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í skóla- og frístundaráði, Reykjavíkurborg hafa „svipað kerfi í stærra samhengi“. Áhyggjur séu af afleiðingum þess að aðgreina börnin frá jafnöldrum sínum í of langan tíma.
Haft er eftir Unnari Stefáni Sigurðssyni skólastjóra Háaleitisskóla, úr umfjöllun mbl.is, að það sé „ekki spurning“ að þessi leið gæti verið fyrirmynd fyrir aðra skóla á landinu. Deildin, sem ber nafnið Friðheimar, var opnuð í október 2023. Áhersla er lögð á íslensku, stærðfræði, lífsleikni og upplýsingatækni. Aðlögunin fer þannig fram að nemendur byrja í Friðheimum en stunda leikfimi og list- og verkgreinar í Háaleitisskóla með jafnöldrum sínum.
„Svo hægt og rólega, ef þau eru tilbúin í meira, þá fara þau að koma í ÍSAT, íslensku sem annað tungumál, þannig að ÍSAT-grunnurinn er kenndur í Friðheimum og svo geta þau komið á fyrsta, annað eða þriðja þrep yfir í Háaleitisskóla,“ er haft eftir Unnari.
Þrettándi liður stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins í menntamálum, sem sett var fram fyrir síðustu Alþingiskosningar, hefur að sögn Helga svipuð viðmið og fyrirkomulag Háaleitisskóla.
„Æskilegt er að börn sem koma til landsins og ekki tala íslensku taki sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni í móttökuskóla eða -deild þar sem öll áhersla er á íslensku og íslenska menningu. Lestrarfærni þeirra verði metin áður en þau hefja nám með sínum jafnöldrum hérlendis. Um er að ræða brú í takmarkaðan tíma til að skólastarf þeirra og annarra gangi sem best. Markmiðið er að mæta betur þörfum hvers barns,“ segir í stefnuskrá flokksins um menntamál.
„Við styðjum þessa stefnu. Þetta hefur hins vegar ekki verið stefna menntayfirvalda. Þau vilja hafa þetta prinsipp að það sé skóli án aðgreiningar og þetta er eitthvað sem brýtur í bága við það prinsipp. Svo hafa önnur úrræði verið notuð en það hefur ekki verið með nægilega vel skipulögðum hætti,“ segir Helgi.
Aðspurður segir Helgi engar umræður hafa verið hjá skóla- og frístundaráði sem samræmist starfsemi Friðheima. Heilmikið starf sé þó í gangi í málaflokki erlendra barna á Íslandi.
„Það gengur bara ekki að horfa á stefnuna um skóla án aðgreiningar án tillits til aðstæðna, það verða að vera mikið skipulagðari vinnubrögð um hvernig megi taka á móti nemendum sem hafa ekki tök á tungumálinu, menningunni og svo framvegis,“ segir Helgi.
„Það hefur ekki verið vilji hjá þeim sem eru að stjórna í menntamálum að gera þetta.“
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í skóla- og frístundaráði, segir Reykjavíkurborg hafa „svipað kerfi í stærra samhengi“.
„Við erum með móttökudeildir þar sem meiningin er að börnin séu í stuttan tíma og fari svo í sína hverfisskóla. Ákveðin aðlögun verður að eiga sér stað en mismikil eftir því hvaðan börnin eru að koma, hve mikla skólagöngu þau hafa fengið og hvað er mikil áfallasaga að baki hjá þeim,“ segir Alexandra. Áhersla sé einnig lögð á íslensku þar og að koma börnunum í sína bekki í hverfisskólum þegar þau eru til þess búin.
„Við viljum ekki að þau séu aðgreind lengur en nauðsynlegt er. Þannig að ég vil í rauninni meina að við séum að gera þetta á svipaðan hátt, nema við erum með mjög marga skóla og erum því með nokkra móttökubekki sem þjónusta stærri svæði. Við erum að fjölga þeim, en þetta hljómar eins og við séum að gera þetta nokkuð svipað.“
Nú sagði Helgi umrætt fyrirkomulag í Háaleitisskóla brjóta í bága við stefnuna um skóla án aðgreiningar. Hver er þín sýn á því?
„Ef þau eru mjög lengi þarna, þá getur það verið. Við viljum auðvitað ekki búa til of mikla aðgreiningu eða að þeim sé haldið frá því að kynnast sínum jafnöldrum eða vera með í hefðbundnu skólastarfi. Þar liggur hugsunin.
Við deilum þó sjónarmiðinu að það sé ákveðinn aðlögunartími nauðsynlegur til að aðlagast, eins og íslenskukennslu og hvernig er að vera í íslenskum skóla. Einstaka börn, sem koma frá mjög stríðshrjáðum löndum, þurfa kannski að vera ögn lengur þar sem þau hafa jafnvel enga skólagöngu að baki.“