Brýtur í bága við stefnu um skóla án aðgreiningar

Fyrirkomulag mót­töku­deildar Háa­leit­is­skóla á Ásbrú í Reykja­nes­bæ er sagt brjóta …
Fyrirkomulag mót­töku­deildar Háa­leit­is­skóla á Ásbrú í Reykja­nes­bæ er sagt brjóta í bága við stefnuna um skóla án aðgreiningar. Samsett mynd/Aðsend

Mót­töku­deild Háa­leit­is­skóla á Ásbrú í Reykja­nes­bæ fyr­ir börn í leit að alþjóðlegri vernd hef­ur stutt við aðlög­un barn­anna að ís­lensku skóla­kerfi og gefið góða raun.

Spurð hvort fyr­ir­komu­lagið sé fyr­ir­mynd fyr­ir skólastarf Reykja­vík­ur­borg­ar segja full­trú­ar skóla- og frí­stundaráðs fyr­ir­komu­lagið brjóta í bága við stefnu borg­ar­inn­ar um skóla án aðgrein­ing­ar.

Helgi Áss Grét­ars­son, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í skóla- og frí­stundaráði, seg­ir stefnu­skrá Sjálf­stæðis­flokks­ins í mennta­mál­um inni­halda svipað fyr­ir­komu­lag og um ræðir en mennta­yf­ir­völd leggi meiri áherslu á skóla án aðgrein­ing­ar.

Þá seg­ir Al­ex­andra Briem, borg­ar­full­trúi Pírata í skóla- og frí­stundaráði, Reykja­vík­ur­borg hafa „svipað kerfi í stærra sam­hengi“. Áhyggj­ur séu af af­leiðing­um þess að aðgreina börn­in frá jafn­öldr­um sín­um í of lang­an tíma.

Fyr­ir­mynd fyr­ir aðra skóla

Haft er eft­ir Unn­ari Stefáni Sig­urðssyni skóla­stjóra Háa­leit­is­skóla, úr um­fjöll­un mbl.is, að það sé „ekki spurn­ing“ að þessi leið gæti verið fyr­ir­mynd fyr­ir aðra skóla á land­inu. Deild­in, sem ber nafnið Friðheim­ar, var opnuð í októ­ber 2023. Áhersla er lögð á ís­lensku, stærðfræði, lífs­leikni og upp­lýs­inga­tækni. Aðlög­un­in fer þannig fram að nem­end­ur byrja í Friðheim­um en stunda leik­fimi og list- og verk­grein­ar í Háa­leit­is­skóla með jafn­öldr­um sín­um.

„Svo hægt og ró­lega, ef þau eru til­bú­in í meira, þá fara þau að koma í ÍSAT, ís­lensku sem annað tungu­mál, þannig að ÍSAT-grunn­ur­inn er kennd­ur í Friðheim­um og svo geta þau komið á fyrsta, annað eða þriðja þrep yfir í Háa­leit­is­skóla,“ er haft eft­ir Unn­ari.

Þrett­ándi liður stefnu­skrár Sjálf­stæðis­flokks­ins í mennta­mál­um, sem sett var fram fyr­ir síðustu Alþing­is­kosn­ing­ar, hef­ur að sögn Helga svipuð viðmið og fyr­ir­komu­lag Háa­leit­is­skóla.

„Æskilegt er að börn sem koma til lands­ins og ekki tala ís­lensku taki sín fyrstu skref í grunn­skóla­göng­unni í mót­töku­skóla eða -deild þar sem öll áhersla er á ís­lensku og ís­lenska menn­ingu. Lestr­ar­færni þeirra verði met­in áður en þau hefja nám með sín­um jafn­öldr­um hér­lend­is. Um er að ræða brú í tak­markaðan tíma til að skólastarf þeirra og annarra gangi sem best. Mark­miðið er að mæta bet­ur þörf­um hvers barns,“ seg­ir í stefnu­skrá flokks­ins um mennta­mál.

Taka verður til­lit til aðstæðna

„Við styðjum þessa stefnu. Þetta hef­ur hins veg­ar ekki verið stefna mennta­yf­ir­valda. Þau vilja hafa þetta prinsipp að það sé skóli án aðgrein­ing­ar og þetta er eitt­hvað sem brýt­ur í bága við það prinsipp. Svo hafa önn­ur úrræði verið notuð en það hef­ur ekki verið með nægi­lega vel skipu­lögðum hætti,“ seg­ir Helgi.

Aðspurður seg­ir Helgi eng­ar umræður hafa verið hjá skóla- og frí­stundaráði sem sam­ræm­ist starf­semi Friðheima. Heil­mikið starf sé þó í gangi í mála­flokki er­lendra barna á Íslandi.

„Það geng­ur bara ekki að horfa á stefn­una um skóla án aðgrein­ing­ar án til­lits til aðstæðna, það verða að vera mikið skipu­lagðari vinnu­brögð um hvernig megi taka á móti nem­end­um sem hafa ekki tök á tungu­mál­inu, menn­ing­unni og svo fram­veg­is,“ seg­ir Helgi.

„Það hef­ur ekki verið vilji hjá þeim sem eru að stjórna í mennta­mál­um að gera þetta.“

Svipað kerfi í stærra sam­hengi

Al­ex­andra Briem, borg­ar­full­trúi Pírata í skóla- og frí­stundaráði, seg­ir Reykja­vík­ur­borg hafa „svipað kerfi í stærra sam­hengi“.

„Við erum með mót­töku­deild­ir þar sem mein­ing­in er að börn­in séu í stutt­an tíma og fari svo í sína hverf­is­skóla. Ákveðin aðlög­un verður að eiga sér stað en mis­mik­il eft­ir því hvaðan börn­in eru að koma, hve mikla skóla­göngu þau hafa fengið og hvað er mik­il áfalla­saga að baki hjá þeim,“ seg­ir Al­ex­andra. Áhersla sé einnig lögð á ís­lensku þar og að koma börn­un­um í sína bekki í hverf­is­skól­um þegar þau eru til þess búin.

„Við vilj­um ekki að þau séu aðgreind leng­ur en nauðsyn­legt er. Þannig að ég vil í raun­inni meina að við séum að gera þetta á svipaðan hátt, nema við erum með mjög marga skóla og erum því með nokkra mót­töku­bekki sem þjón­usta stærri svæði. Við erum að fjölga þeim, en þetta hljóm­ar eins og við séum að gera þetta nokkuð svipað.“

Nú sagði Helgi um­rætt fyr­ir­komu­lag í Háa­leit­is­skóla brjóta í bága við stefn­una um skóla án aðgrein­ing­ar. Hver er þín sýn á því?

„Ef þau eru mjög lengi þarna, þá get­ur það verið. Við vilj­um auðvitað ekki búa til of mikla aðgrein­ingu eða að þeim sé haldið frá því að kynn­ast sín­um jafn­öldr­um eða vera með í hefðbundnu skóla­starfi. Þar ligg­ur hugs­un­in.

Við deil­um þó sjón­ar­miðinu að það sé ákveðinn aðlög­un­ar­tími nauðsyn­leg­ur til að aðlag­ast, eins og ís­lensku­kennslu og hvernig er að vera í ís­lensk­um skóla. Ein­staka börn, sem koma frá mjög stríðshrjáðum lönd­um, þurfa kannski að vera ögn leng­ur þar sem þau hafa jafn­vel enga skóla­göngu að baki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert