Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað miskabótakröfu manns vegna bréfs, sem embætti landlæknis hafði ritað samtökunum Geðhjálp, en þar kom meðal annars fram að maðurinn væri kominn í ótímabundið leyfi frá störfum sem deildarstjóri réttar- og öryggisgeðdeildar Landspítala.
Maðurinn höfðaði málið á hendur landlæknisembættinu og íslenska ríkinu í júní í fyrra en það var dómtekið í mars. Hann fór fram á 10 milljónir kr. í miskabætur vegna málsins.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í dag, að maðurinn hafi starfað sem deildarstjóri á réttar- og öryggisgeðdeild Landspítala.
Þá segir að 27. nóvember 2020 hafi samtökin Geðhjálp sent erindi til embættis landlæknis þar sem meðal annars hafi verið vakin athygli á því að fimm ýmist núverandi eða fyrrverandi starfsmenn réttar- og öryggisgeðdeildar hefðu bent á að því er virtist verulegan misbrest í meðferð sjúklinga á deildinni.
Með erindinu fylgdi meðal annars nafnlaus greinargerð sem sögð var rituð af umræddum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum deildarinnar. Afrit erindisins var sent á forstjóra Landspítala og forstöðumann geðþjónustu.
Í framhaldinu óskað Í framhaldinu óskaði stefndi embætti landlæknis eftir greinargerð frá Landspítalanum um málið. Spítalinn skilaði þeirri greinargerð 12. apríl 2021. Þar segir að vinnuhópur hafi verið stofnaður innan spítalans vegna málsins. Niðurstaða Landspítalans sé sú að lýsingin á meðferð sjúklinga sem fram komi í hinni nafnlausu greinargerð samrýmist á engan hátt þeirri starfsemi sem fram fari á umræddri deild.
Í dómnum segir jafnframt að 12. maí 2021 hafi RÚV birt frétt á vef sínum undir fyrirsögninni „Lyfjaþvinganir, ofbeldi og ógnarstjórnun“. Þar kom meðal annars fram að embætti landlæknis hefði til athugunar alvarlegar ábendingar um slæman aðbúnað á réttar- og öryggisgeðdeild Landspítala í kjölfar bréfs frá Geðhjálp. Hefði embættið farið í vettvangsheimsóknir vegna málsins og Landspítali hefði tekið viðtöl við fjölda starfsmanna. Vitnað hafi verið til greinargerðarinnar sem fylgt hafði bréfi Geðhjálpar til embættisins.
Sama dag birti DV frétt undir fyrirsögninni „Ásakanir um alvarlegt ofbeldi á Kleppi“. Sambærilega frétt birti fjölmiðillinn Morgunblaðið síðar sama dag undir fyrirsögninni „Starfsmenn á Kleppi lýsa ömurlegum aðstæðum“.
Í viðtali við RÚV, sem birtist 13. maí 2021, lýstu þrír nafngreindir fyrrum starfsmenn réttar- og öryggisgeðdeildar sinni reynslu af stjórnendum deildarinnar með afar neikvæðum hætti. Var þar rætt um að sjúklingar og starfsmenn hefðu orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Deildarstjórinn fyrrverandi var settur í ótímabundið leyfi frá störfum 18. maí 2021.
Hann kvartaði til Persónuverndar 2. nóvember 2021 og krafðist þess að Persónuvernd rannsakaði og úrskurðaði um hvort stefndi embætti landlæknis hefði brotið lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga vegna upplýsingagjafar til Geðhjálpar. Nánar tiltekið varðandi það að bréfið hefði geymt upplýsingar um að deildarstjórinn væri kominn í ótímabundið leyfi og annar tekinn við starfi hans.
Með úrskurði Persónuverndar 22. desember 2022 var vinnsla stefnda talin samrýmast ákvæðum laga þar sem hún hefði verið nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvíldi á landlækni. Byggðist niðurstaðan á því að landlæknisembættið hefði játað Geðhjálp aðild að stjórnsýslumáli hjá embættinu og það því leitast við að virða lögbundinn upplýsingarétt. Taldi Persónuvernd ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu embættisins.
Maðurinn kvartaði í kjölfarið til umboðsmanns Alþingis yfir þeirri ákvörðun embættisins að veita þriðja aðila, Geðhjálp, stöðu aðila að eftirlitsmáli hjá stefnda er varðaði meðal annars störf mannsins. Einnig kvartaði hann yfir því að Persónuvernd hefði ekki sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti.
Í áliti umboðsmanns Alþingis 28. ágúst 2023 kom fram að úrskurður Persónuverndar hefði ekki verið reistur á fullnægjandi grundvelli með tilliti til rannsóknarskyldu Persónuverndar samkvæmt lögum. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Persónuverndar að taka mál mannsins til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni þess efnis og leysa úr málinu til samræmis við þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu.
Að beiðni mannsins var mál hans hjá Persónuvernd endurupptekið. Síðari úrskurður Persónuverndar var kveðinn upp 29. febrúar 2024. Það var mat Persónuverndar að ekki hefði hvílt lagaskylda á embætti landlæknis samkvæmt upplýsingalögum til að miðla persónuupplýsingum um manninn til Geðhjálpar. Þá hafi ekki verið séð að miðlun upplýsinganna hafi getað byggst á lagaskyldu embættis landlæknis að öðru leyti.
Þann 12. mars 2024 krafðist maðurinn miskabóta úr hendi embættis landlæknis vegna tjóns síns af völdum miðlunar persónuupplýsinga.
Maðurinn byggði á því að landlæknisembætti og ríkið hafi brotið gegn ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, einnig reglugerð (ESB) 2016/679, þegar embættið miðlaði persónuupplýsingum um manninn til þriðja aðila, Geðhjálpar, án lagaheimildar eða réttmætrar ástæðu.
Með miðlun þessari og broti á lögum hafi embættið og ríkið bakað manninum ólögmæta meingerð gegn æru og persónu hans og beri sameiginlega fébótaábyrgð vegna þess miskatjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir.
Ríkið og embætti landlæknis mótmæltu öllum málsástæðum mannsins og töldu skilyrði skaðabótaábyrgðar ekki uppfyllt í málinu. Þau sögðu að maðurinn hefði ekki sannað að meint tjón hans yrði rakið til þess að embættið hefði miðlað upplýsingum til Geðhjálpar um að maðurinn væri kominn í ótímabundið leyfi. Þá var því mótmælt að háttsemi starfsmanna embættisins og ríkisins hefði verið saknæm eða að tjón mannsins væri sennileg afleiðing af háttsemi starfsmannanna. Þá væri ekki séð að orsakatengsl væru milli háttsemi starfsmanna stefndu og meints tjóns mannsins.
Ríkið og embættið lýstu sig einnig ósammála seinni úrskurði Persónuverndar.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að almennt ríki engin þagnarskylda um það hverjir teljist starfsmenn opinberrar stofnunar. Við nánara mat á heimildum stjórnvalda til að veita upplýsingar um nöfn opinberra starfsmanna og starfssvið þeirra beri að líta til þess að helsta meginregla upplýsingalaga sé upplýsingaréttur almennings og undantekningar frá þeirri meginreglu í 7. gr. laganna verði ekki skýrðar rúmri skýringu nema orðalag þeirra eða lögskýringargögn séu fortakslaus um slíkt, en það eigi ekki við hér.
Sé stjórnandi deildar opinberrar stofnunar í leyfi og því ekki við störf séu slíkar upplýsingar þar með ekki háðar þagnarskyldu. Ekki væri þó heimilt að veita samhliða því þagnarskyldar upplýsingar, svo sem ef vísað væri til þess að leyfið væri vegna tiltekins sjúkdóms stjórnandans.
Héraðsdómur bendir á að í bréfi embættis landlæknis til Geðhjálpar 31. maí 2021 segi einungis um manninn að hann sé kominn í ótímabundið leyfi.
„Þess ber að geta að hvergi í bréfinu kemur fram hver ástæða þess hafi verið að stefnandi fór í ótímabundið leyfi, eins og stefndu hafa réttilega bent á. Þá var stefnanda hvergi hallmælt í bréfinu. Ekki fær þannig staðist sú staðhæfing stefnanda að hann hafi með bréfinu verið gerður að „blóraböggli vegna þeirra vegna þeirra aðfinnslna og ásakana“ sem tengdust greinargerðinni sem fylgdi bréfi Geðhjálpar,“ segir í dómi héraðsdóms.
Það er því niðurstaða héraðsdóms að upplýsingamiðlun embættis landlæknis hafi átt sér nægjanlega stoð í upplýsingalögum og geti því ekki talist fela í sér ólögmæta eða saknæma háttsemi af hálfu embættisins. Við þeirri niðurstöðu hrófla ekki tilvísanir mannsins til sjónarmiða um æruvernd og friðhelgi einkalífsins samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Hið sama eigi við um tilvísun mannsins til annarrar og þrengri túlkunar Persónuverndar á upplýsingarétti almennings samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga, enda sé dómurinn ekki bundinn af þeirri túlkun þegar hann leggur mat á það hvort fyrrgreind háttsemi embættisins feli í sér saknæma og ólögmæta háttsemi í tengslum við úrlausn bótakröfu mannsins, sem teljist annað sakarefni en ágreiningur um gildi stjórnvaldsákvörðunar.
„Þar sem dómurinn hefur hafnað málatilbúnaði stefnanda um að fyrir hendi sé saknæm og ólögmæt háttsemi af hálfu stefnda embættis landlæknis er ljóst að ekki getur komið til bótaskyldu vegna umræddra ummæla í bréfi téðs stefnda. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna báða stefndu af kröfum stefnanda,“ segir í dómi héraðsdóms.