Verkalýðsfélag Akraness segir að undirbúningur sé hafinn að atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun starfsmanna hjá Norðuráli.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins en bent er á að nú séu liðnir þrír mánuðir frá því að kjarasamningur starfsmanna Norðuráls rann út.
„Skemmst er frá því að segja að ekkert sé að frétta í þessari deilu og afskaplega lítinn vilja að finna af hálfu fyrirtækisins til þess að ganga frá kjarasamningi þannig að starfsmenn fái launahækkun til að standa undir hinum ýmsu hækkunum sem almenningur í þessu landi hefur þurft að þola á liðnum misserum,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að ekkert annað sé í stöðunni en að nýta fyrsta tækifæri til að greiða atkvæði um vinnustöðvun.
„Að þessu sögðu tilkynnti formaður á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær að VLFA muni hefja undirbúning að kosningu um verkfall og stefnir félagið á að hefja kosningu á fimmtudaginn í næstu viku enda engin önnur staða á vellinum en að sýna fulla staðfestu í að knýja fram sanngjarnan og réttlátan kjarasamning.“