Kínverska sendiráðið gagnrýnir íslensku lögregluna

Talsmaðurinn segir kínverska sendiráðið á Íslandi hafa tekið eftir því …
Talsmaðurinn segir kínverska sendiráðið á Íslandi hafa tekið eftir því að ríkislögreglustjórinn hafi sakað og rægt Kína um að „eiga þátt í njósnastarfsemi á Íslandi og í Evrópu“ og „söfnun gagna“. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/mbl.is/Eggert

Talsmaður kínverska sendiráðsins á Íslandi segir tilhæfulausar ásakanir ekki stuðla að vinsamlegu samstarfi Kína og Íslands. Ummælin eru svar við ásökunum lögregluyfirvalda á hendur Kína sem komu fram á öryggis- og varnarráðstefnu í gær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sendiráðinu sem var send á fjölmiðla.

Talsmaðurinn segir kínverska sendiráðið á Íslandi hafa tekið eftir því að embætti ríkislögreglustjóa hafi sakað og rægt Kína um að „eiga þátt í njósnastarfsemi á Íslandi og í Evrópu“ og „söfnun gagna“.

„Það kom okkur í opna skjöldu, við erum óánægð með það og mótmælum því harðlega,“ er haft eftir honum.

Lögregluyfirvöld hvött til að „leggja niður hroka sinn og fordóma“

Á ráðstefnunni í gær sagði Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og yfirmaður öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra, Kínverja stunda njósnir. Það hafi verið viðkvæmt efni að fjalla um en það sé tímabært að opna á umræðuna.

Sagði hann Kínverja afla sér upplýsinga sem notaðar séu í hernaðarlegum tilgangi og nýti sér einkafyrirtæki til þess, en einkafyrirtækjum í Kína er skylt að deila upplýsingum með stjórnvöldum. Í því samhengi nefndi hann rannsóknarstarfsemi Kínverja á Kárhóli sem miðar að rannsóknum á norðurljósum.

Talsmaður sendiráðsins mótmælir þessu harðlega og bendir á að Kína hafi unnið með Íslandi til að sigrast á þeim áskorunum sem þjóðin stóð frammi fyrir eftir efnahagshrunið 2008 og að það sé staðráðið í að auka vináttu við Ísland gagnvart núverandi óróa á alþjóðavettvangi.

Þá segir hann Kína reiðubúið að vinna með Íslandi að því að dýpka vinsamlegt samstarf á öllum sviðum, með það fyrir augum að auka stöðugleika og vissu í heiminum.

„Við hvetjum viðkomandi stofnun til að leggja hrokann og fordóma til hliðar og forðast að senda frá sér tilhæfulausar ásakanir og dreifa sögusögnum. Einnig er viðkomandi stofnun hvött til að taka mið af heildarástandi í samskiptum Kína og Íslands, halda uppi sjálfstæðu, hlutlægu og sanngjörnu viðhorfi og gera fleira sem stuðlar að heilbrigðri þróun tvíhliða samskipta, frekar en hið gagnstæða,“ er haft eftir talsmanninum.

Uppfært klukkan 9:50

mbl.is óskaði eftir viðbrögðum frá Karli Steinari Valssyni, yfirlögregluþjóni og yfirmanns öryggis- og greiningarsviðs ríkislörgeglustjóra, um ummæli kínverska sendiráðsins en hann kaus að tjá sig ekki frekar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert