Listamaðurinn Joey Syta, sem komst í fréttirnar á dögunum eftir að hann lenti í sjálfheldu í Loðmundarfirði og var bjargað af björgunarsveitum, var leiddur á brott af lögreglumönnum í hálfleik á körfuboltaleik Hattar og Álftaness á Egilsstöðum í gær.
Hafði hann þá verið í samskiptum við börn á leiknum og fullorðinn einstaklingur á leiknum sakaði hann um að lykta af marijúana að sögn Syta.
Lögregla segir Syta ekki sakaðan um neitt glæpsamlegt en Hjalti Bergmar Axelsson, yfirlögregluþjónn á Egilsstöðum, segir að óskað hafi verið eftir liðsinni lögreglu á leiknum vegna háttsemi einstaklings án þess að nefna Syta á nafn. Hann segir þó að ekkert hafi verið upp á háttsemi hans að klaga og að hann hafi yfirgefið svæðið þegar eftir því var óskað.
Sjálfur segir Syta í samtali við mbl.is að afskipti lögreglu hafi komið flatt upp á hann. Hann sé hins vegar mikill áhugamaður um körfubolta og honum þyki miður að geta ekki komið í íþróttahúsið að nýju til þess að skjóta á körfu eða fara á leik með Hetti. Hann segist brátt yfirgefa Ísland en hefur augastað á húseignum á Seyðisfirði.
Syta hefur einmitt dvalið á Seyðisfirði undanfarið og segir að börnin á Austfjörðum hafi sótt mjög í hann eftir að fregnir bárust af upplifun hans í Loðmundarfirði.
„Á leiknum hópuðust börnin í kringum mig og ég hef reynt að gefa mér tíma fyrir þau þar sem ég er sjálfur ungur í anda (a big kid at heart). Ég var hins vegar búinn að segja þeim að þau gætu ekki verið í kringum mig þegar leikurinn væri í gangi þannig að ég horfði svo á leikinn eins og hver annar. Svo kom hálfleikur og þá er þarna krullhærður maður sem segir við mig að það sé maríjúanalykt af mér og hann biður mig um að fara. Ég vildi ekki valda neinum vandræðum og ætlaði að fara en þá kom lögreglan og fylgdi mér út. Ég veit ekki einu sinni um hvað málið snýst,“ segir Syta.
Hann segir að lögreglumenn hefðu lyktað af honum og tjáð honum að hann lyktaði alls ekki af marijúana. Þeir buðust til þess að skutla honum og vinkonu hans til Seyðisfjarðar aftur og þáðu þau það.
„Þetta var frítt far og bara frábært að fá það,“ segir Syta, sem á afmæli í dag.