Íbúi í Grafarvogi sem var á hitafundi segir að sér hafi verið misboðið þegar Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og varafulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði, ræddi við gesti borgarafundar um skipulagsmál í Gufunesi þann 20. mars.
Segir hún Alexöndru hafa „öskrað“ á móður sína, sett bringuna fram og baðað út höndum með kreppta hnefa. Hún er sögð hafa hækkað rödd sína og sagt „ertu að segja að ég sé að ljúga“.
Sjálf kannast Alexandra ekki við að hafa verið með kreppta hnefa en segir að sér þyki atvikið leitt og sér eftir því að hafa hækkað róminn.
Íbúinn heitir Bergþóra Long og er 29 ára Grafarvogsbúi. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá eftirmála atviksins þar sem Bergþóru er augljóslega misboðið yfir viðbrögðum Alexöndru.
Hins vegar er atvikið sjálft ekki á myndbandinu.
„Þú ert borgarfulltrúi Reykjavíkur,“ „þú raukst í hana,“ „þetta er út úr kú“ má heyra fólk segja á myndbandinu. Heyra má Alexöndru malda í móinn í fyrstu áður en hún biðst afsökunar.
Bergþóra var á fundinum ásamt móður sinni sem hún segist hafa haft það á orði að borgin væri ljúga hvað snertir uppbyggingu á samgöngum í kringum byggingarreit í Jöfurbás í Gufunesi þar sem tvær blokkir hafa risið. Í framhaldinu hafi Alexandra brugðist ókvæða við.
„Fundinum var skipt upp þannig að íbúar gátu farið á milli fjögurra svæða þar sem hægt var að spyrja út í ákveðna þætti í skipulaginu. Alexandra var þarna á einu svæðinu og þar átti að vera hægt að spyrja hana nánar út í viss atriði,“ segir Bergþóra.
Að sögn Bergþóru virtist Alexöndru heitt í hamsi á fundinum fram að atvikinu sem um ræðir. Það hafi komið fram þegar hún talaði yfir fundinum í gegnum míkrófón.
„Það var hálfgerð þvaga þarna en ég fór til hennar og spurði út í samgöngumál hjá íbúðum sem þegar hafa risið þarna í Gufunesi. Samgöngumálin eru í bullinu þarna og ekkert er búið að gera sem átti að gera. Þá kemur mamma inn í þá umræðu og segist horfa til þessa uppbyggingarsvæðis daglega og segir borgina hafa logið til um þá samgönguuppbyggingu sem átti að fara fram í kringum blokkirnar,“ segir Bergþóra.
Segir hún Alexöndru hafa gripið þessi orð móður hennar á lofti.
„Þá veitist hún að mömmu, stígur fram með bringuna út í loftið og baðar út höndum með kreppta hnefa og öskrar á hana: „Ertu að segja að ég sé að ljúga.“ Mjög agressíft. Hún virtist bandbrjáluð yfir þessu og manni blöskraði strax þessi hegðun,“ segir Bergþóra.
Hún segir móður sinni afar brugðið eftir atvikið og hafi í raun verið eftir sig lengi á eftir. „Mér finnst galið að borgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg geti hagað sér svona,“ segir Bergþóra.
„Við sökuðum hana ekki um að ljúga heldur sögðum borgina hafa logið þegar talað var um samgönguuppbyggingu,“ segir Bergþóra.
Bæði hún og móðir hennar eru starfsmenn hjá Reykjavíkurborg. Bergþóra vinnur með fötluðum en móðir hennar í grunnskóla.
„Þetta er ekki viðunandi hegðun hjá kjörnum fulltrúa. Ég myndi aldrei haga mér svona í minni vinnu, að sýna fötluðum einstaklingi að ég sé eitthvað betri en hann eða að líta á mig sem manneskju í valdastöðu gagnvart einhverjum og haga sér svona. Mér finnst þetta sambærilegt og að hún sé að láta valdið stíga sér til höfuðs með því að tala svona til okkar,“ segir Bergþóra.
Alexandra segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki átt sinn besta dag á fundinum.
„Þetta var erfiður fundur og ekki minn besti dagur. Ég vissulega snöggreiddist þarna og hækkaði róminn, sem ég hefði ekki átt að gera. Ég var ekki með krepptan hnefa og það sem ég gerði með höndunum, að baða þeim út, var meira svona spyrjandi, eins og ég upplifði þetta,“ segir Alexandra.
Hún segir að henni þyki leitt ef móðir Bergþóru upplifði ógnun af tilburðum hennar.
„Mér þykir óskaplega leitt að hún hafi upplifað það þannig, enda fór ég og bað hana innilegrar afsökunar þegar ég áttaði mig á því að henni liði þannig. En það var aldrei tilgangur minn að vera ógnandi,“ segir Alexandra.
Spurð segir Alexandra að marga á fundinum hafa verið ósátta og niðri fyrir hvað snertir þær uppbyggingarhugmyndir sem eru í Grafarvogi þar sem m.a. stendur til að byggja á grænum reitum.
„Í rauninni upplifði ég mig í þremur tiltölulega heitum samtölum samtímis þegar þetta kom upp. Það voru læti þarna og ég get alveg skilið að fólki líði illa yfir þessu. Mér leið ekkert vel heldur og auðvitað átti ég ekki að hækka róminn svona. Ég biðst afsökunar og mun reyna að passa mig í framtíðinni,“ segir Alexandra.