Of háar einkunnir og of lítið skipulag

Yfirmaður menntamála hjá OECD segir að mun meiri metnaður sé …
Yfirmaður menntamála hjá OECD segir að mun meiri metnaður sé innan þeirra ríkja sem standa sig betur en Ísland í PISA. mbl.is/Karítas

Ísland sýnir ekki það stig menntunar sem ætla mætti af fjármagninu sem lagt er í menntun hér á landi. Kennarar eiga það til að gefa nemendum góðar einkunnir fyrir ekki svo góðan árangur. Þetta er álit Andreas Schleicher, yfirmanns menntamála hjá OECD sem framkvæmir PISA-kannanirnar.

Niðurstöður PISA hafa verið mikið til umræðu hér á landi, þar sem þær hafa sýnt sífellt versnandi frammistöðu íslenskra ungmenna í alþjóðlegum samanburði.

Schleicher er staddur hér á landi í tengslum við alþjóðlegan leiðtogafund um málefni kennara, ISTP. Blaðamaður tók Þjóðverjann tali í Hörpu og spurði hann út í það sem bæta mætti í íslensku menntakerfi.

Í því sambandi kallar hann eftir meira skipulagi og betri strúktúr.

Kerfið sé ekki alslæmt á Íslandi, það hafi sína styrkleika. Nefnir hann þar sérstaklega að íslenskir nemendur séu sjálfstæðir og sýni almennt góða sálræna líðan og góða tilfinningu fyrir félagslegum tengslum.

„Þetta eru mikilvægir styrkleikar, við skulum ekki gera lítið úr því.“

mbl.is/Karítas

Mun meiri metnaður hjá ríkjum sem standa sig betur

Hvað getur þú sagt okkur um menntakerfi þeirra ríkja sem hafa staðið sig betur í PISA?

„Þar er sýndur mun meiri metnaður og gerðar meiri og stöðugri væntingar til nemenda. Á Íslandi fá nemendur oft góðar einkunnir þegar árangur þeirra er kannski ekki svo mikill og það sendir ungu fólki röng skilaboð,“ segir Schleicher.

Telur hann að kennarar meini vel. Þeir vilji kannski ekki vera of harðir við nemendur en í raun séu þeir að segja við þá að árangur þeirra skipti engu eða að kennarinn þeirra treysti þeim ekki til að sýna metnað.

„Væntingar í þessum ríkjum sem hafa verið að gera vel eru miklar og þær eru stöðugar. Þá eru kerfin þeirra góð og virðast laða að sér hæfileikaríkustu kennarana inn í krefjandi kennslustofur. Þú veist, ef þú ert með erfiða nemendur en færð ekki betra úrræði, þá færð þú betri kennara. Það er virkilega mikilvægt. Gæði menntunar geta aldrei verið meiri en gæði kennaranna,“ segir hann.

„Og sú fjárfesting sem þessi ríki leggja í góða reynslumikla kennara, fyrir þá nemendur sem eru hvað mest áskorun, held ég að sé annað sem skiptir virkilega miklu máli.“

Finnst skorta skipulag

Þú hefur heimsótt íslenska skóla í vikunni. Komstu auga á eitthvað sem við erum að gera sem við ættum kannski ekki að vera að gera?

„Það sem heillaði mig í raun og veru var hversu mikla vinnu kennarar leggja á sig við að finna leið að hverjum og einum nemanda. Þeir virðast mjög næmir á aðstæður.“

Schleicher segist hafa farið í skóla þar sem margir innflytjendur eru og séð kennarana virkilega reyna. Til dæmis ef nemandi átti erfitt með að læra tungumál notuðu þeir tónlist að hans sögn. Hann segist hrifinn af þeirri nálgun og telur hana skipta mjög miklu máli.

Hins vegar segist hann hafa saknað meira skipulags og betri strúktúrs. Nemendur viti ekki það sem þeir vita ekki og sem kennari kann hann að meta nemendamiðaða nálgun á Íslandi.

„En nálgunin þarf líka að vera kennarastýrð þar sem kennarar segja: „Sko, þér finnst kannski ekki gaman að læra stærðfræði í dag en staðreyndin er sú að ég veit að fyrir þína framtíð er mjög mikilvægt að læra stærðfræði.“

Það er eitthvað sem mér fannst ekki mjög augljóst að væri í lagi í þeim skólum sem ég hef skoðað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert